Tregi eða tregða?

Í frétt á vefmiðli í dag rakst ég á eftirfarandi málsgrein: „Búlgarski for­sæt­is­ráðherr­ann Kiril Pet­kov seg­ir að varn­ar­málaráðherra landsins verði lát­inn taka poka sinn í dag vegna trega til að taka afstöðu til inn­rás­ar Rússa í Úkraínu.“ Það var sambandið vegna trega sem ég staldraði sérstaklega við. Væntanlega er átt við að varnarmálaráðherrann hafi verið tregur til að taka afstöðu til innrásarinnar. En nafnorðið sem svarar venjulega til lýsingarorðsins tregur er ekki karlkynsorðið tregi, heldur kvenkynsorðið tregða.

Það virðist vissulega liggja beint við að tengja tregi við tregur, enda mun fyrrnefnda orðið leitt af því síðarnefnda. Þótt tregi merki oftast 'harmur, sorg' í fornu máli getur það líka merkt 'hindrun, erfiðleikar'. Sú merking orðsins er vissulega að mestu horfin í nútímamáli en er þó tilfærð í Íslenskri orðabók og bregður stöku sinnum fyrir: „Nú er tregi mikill í kerfinu“ segir í Iðnaðarmálum 1961, og „Hér eru því miklir tregar á“ segir Einar Ólafur Sveinsson í Íslenzkum bókmenntum í fornöld 1962 (bæði dæmin fengin úr Ritmálssafni Árnastofnunar). Þarna er ekki langt í merkinguna sem tregða hefur.

Fáein fleiri dæmi af þessu tagi frá síðustu árum má finna á netinu. Notkun orðsins tregi í fréttinni sem ég vísaði til er því skiljanleg út frá líkindum og skyldleika orðanna tregi og tregur, og á sér einnig einhverja stoð í eldri merkingu orðsins tregi. En vegna þess að sú merking er nær horfin í nútímamáli, og rík hefð er fyrir því að halda merkingu orðanna tregi og tregða aðgreindri, þá er eðlilegt að mæla gegn því að nota tregi sem samsvörun við lýsingarorðið tregur eins og gert er í fréttinni – notum heldur tregða eins og málhefðin býður.