Úkraína – Úkranía

Fyrir rúmum 100 árum birtist fróðleg grein sem heitir „Úkranía og íbúar hennar“ í vesturíslenska blaðinu Syrpu en margir Vestur-Íslendingar bjuggu í nábýli við Úkraínumenn. Greinin hefst svo: „Frá Úkraníu hafa flutzt meira en 200,000 manns til Canada. Í daglegu tali eru þeir venjulega kallaðir Galisíumenn, þótt rangt sé, eða Gallar, sem er enn verra. Ef til vill hafa hérlendir menn þá oftar í huga en nokkra aðra, þegar þeir ræða um hina svo kölluðu útlendinga. Vér mætum þeim hvívetna og höfum mikið saman við þá að sælda.“

Eins og þið takið kannski eftir er þarna notuð myndin Úkranía en ekki Úkraína eins og við erum vönust. Elstu dæmi um þessa mynd eru frá 1914, og frá næstu 20 árum eru rúmlega 20 dæmi um hana á tímarit.is, öll í vesturíslenskum blöðum þar sem hún var nær einhöfð alla tíð. Einnig eru dæmi um ýmsar samsetningar með þessari mynd – Úkraníubúi, Úkraníuþjóð, Úkraníumaður, Úkraníukona, úkranískur og e.t.v. fleiri. Það er ekki fyrr en 1934 sem þetta heiti kemur fyrst fyrir í blaði á Íslandi og þá er myndin Úkraína notuð.

En þrátt fyrir að Úkraína sé hin venjulega og opinbera nafnmynd, og hafi frá því að hún kom fyrst fram verið margfalt algengari en Úkranía, hefur síðarnefnda myndin alltaf verið dálítið notuð líka – um hana eru tæp 600 dæmi á tímarit.is og á þriðja hundrað í Risamálheildinni. Það er freistandi að afgreiða þessa mynd sem hverja aðra „villu“ eða misskilning og vissulega er Úkraína nær upprunanum – raunar hljómar nafnið mjög svipað á íslensku og úkraínsku. Hvernig stendur þá á því að myndin Úkranía kemur upp?

Í fljótu bragði má hugsa sér tvær (e.t.v. samverkandi) ástæður. Önnur er áhrif landaheita sem enda á -nía og eru fjölmörg í austanverðri Evrópu – Rúmenía, Albanía, Armenía, Slóvenía, Makedónía, Bosnía og fleiri. Hin er sú að í myndinni Úkraína er svokallað hljóðgap, þ.e. tvö sérhljóð, -aí-, koma saman. „Það er vel þekkt, að hljóðgap inni í orði er vandræðagripur í tungumálum og verður mjög gjarna fyrir ýmiss konar breytingum“ segir Kristján Árnason. Kannski ber breytingin -ína > -nía vott um tilraun málsins til að útrýma hljóðgapinu.

Ég ætla ekki að mæla með myndinni Úkranía og tel rétt að halda sig við hina opinberu nafnmynd. En mér finnst samt rétt að hafa í huga að myndin Úkranía á sér 20 árum lengri sögu í málinu en Úkraína eins og áður segir, og á sér eðlilegar skýringar. Mér finnst engin ástæða til að fordæma hana.