Grunnfærni

Stundum eru gerðar athugasemdir við notkun orðsins grunnfærni í merkingunni 'grundvallarfærni' og vitnað í skýringu Íslenskrar orðabókar þar sem orðið er sagt merkja 'það að vera grunnfær' en grunnfær er skýrt sem 'yfirborðskenndur, grunnhygginn'. Einnig er til lýsingarorðið grunnfærinn í sömu merkingu. Þessi þrjú orð, grunnfær, grunnfærinn og grunnfærni, birtast öll í fyrsta sinn á prenti um aldamótin 1900 og höfðu lengst af þá merkingu sem lýst er í Íslenskri orðabók.

Elsta dæmið sem ég hef fundið um að grunnfærni sé notað í merkingunni 'grundvallarfærni' er í grein í 19. júní árið 1987 þar sem fjallað er um námskrá í íþróttum. Þar segir „með góðri grunnfærni, svo sem að hlaupa, ganga, hoppa, skríða, halda jafnvægi eða kasta og grípa, næst og lærist fljótar margs konar íþróttaleg færni“. Um þessar mundir komst orðið inn í skólamálaumræðu, ýmsum til ama – í grein eftir gamlan skólastjóra í Austra 1993 er býsnast yfir tveim skólamálafrömuðum sem hafi sagt „Hlutverk grunnskólans er að efla með nemendum grunnfærni“.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar tvær merkingar orðsins grunnfærni: 'það að vera grunnfærinn' og 'lágmarksfærni, lágmarkskunnátta'. En strangt tekið er hér ekki um að ræða eitt orð sem hafi tvær mismunandi merkingar, heldur tvö orð, mynduð á mismunandi hátt. Orðið grunnfærni í merkingunni 'það að vera grunnfærinn' er væntanlega myndað af grunnfær(inn), og þar er fyrri liðurinn stofn lýsingarorðsins grunnur. Orðið grunnfærni í merkingunni 'grundvallarfærni' er hins vegar myndað með því að bæta stofni nafnorðsins grunnur framan við færni.

Í Morgunblaðinu 2018 segir: „Lengst af merkti grunnfærni heimska – og grunnfær og grunnfærinn þýða heimskur – (eða yfirborðskenndur). Yngri merking grunnfærni: lágmarkskunnátta, hefur verið notuð í skólamálaumræðu („Auka þarf grunnfærni nemenda …“). Þá þarf að vara sig á lýsingarorðunum, a.m.k. þar til eldri merkingin er gleymd.“ Í fljótu bragði sýnist mér að u.þ.b. 85-90% dæma frá síðustu 20 árum um orðið grunnfærni, bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni, séu um nýrri merkingu orðsins. Eldri merkingin er vissulega ekki gleymd, en á góðri leið með það.

Orðið grunnfærni í merkingunni 'grundvallarfærni' er sem sé fullkomlega eðlileg nýmyndun en það vildi svo til að þessi nýmyndun féll saman við eldra orð, myndað á annan hátt. Vissulega má segja að það sé óheppilegt en þó eru mýmörg dæmi í málinu um slíka tvíræðni eða margræðni orða, og oftast sker samhengið ótvírætt úr um merkinguna. Orðið grunnfærni í nýrri merkingunni er komið inn í námskrár og ýmis opinber plögg og orðið þrælfast í málinu í þeirri merkingu. Sé tekið mið af tíðni er hún orðin aðalmerking orðsins og því verður tæpast breytt héðan af.