Að vera miður sín

Orðasambandið vera miður sín (/mín/þín) kemur fyrst fyrir á prenti 1882 og var sjaldgæft næstu áratugi þar á eftir, en hefur verið algengt síðan um miðja 20. öld. Í Íslenskri orðabók er það skýrt 'vera eða verða beygður, óhress í huga, viðutan (vegna veikinda, einhvers áfalls, taugaveiklunar o.fl.)' og það virðist eiga ágætlega við venjulega notkun þess í nútímamáli. Oft fylgir þessu líka einhver skömmustutilfinning. En merking sambandsins var talsvert önnur lengi framan af – í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal frá 1920-1924 er það skýrt 'tabte sig aandeligt el. legemligt', sem sé 'vera ekki í essinu sínu' andlega eða líkamlega, eða eitthvað í þá áttina.

Í þremur elstu dæmunum er þetta reyndar notað um skepnur. Í Fróða 1882 er talað um „að allur peningur gangi vel undan vetrinum, það er: sje ekki miður sín fyrir megurðar sakir“. Í Norðurljósinu 1892 segir: „eg hef jafnaðarlega rúið hrúta seint á góu og beitt þeim með öðrum kindum mínum og ekki orðið þess var, þeir yrðu miður sín fyrir það.“ Í Búnaðarriti 1899 segir „sjaldan eptir erfiða fæðingu, því að þá er kýrin jafnan miður sín, svo að minna leggst til júgursins“. Mun yngri dæmi eru líka um þetta – í Tímanum 1987 segir: „Eini íslenski stóðhesturinn sem við komum með út var mikið miður sín í hitanum og eftir sig eftir ferðalagið.“

Frá upphafi var sambandið þó oft notað um andlegt ástand fólks – það er miður sín af hræðslu, ótta, sorg, taugaóstyrk, sálsýki, örvæntingu, skelfingu, geðshræringu, vonbrigðum, áhyggjum o.fl. Allt þetta væri eðlilegt í nútímamáli en einnig koma fyrir dæmi sem mér finnst framandi – miður sín af hamingju, viðkvæmni, ofsa, afbrýðisemi, illsku, óþolinmæði, geðvonsku, grenju, pólitískum æsingi o.fl. En lengi framan af var sambandið líka iðulega notað um líkamlegt ástand sem mér finnst varla ganga í nútímamáli – miður sín af hungri, þreytu, svefnleysi, kulda, eitri, hlátri, hjartabilun, tannpínu o.fl. Einnig er talað um að vera miður sín í fjármálum, af fluginu, eftir sjóferðina o.fl.

Þessu til viðbótar var algengt að sambandið væri notað til að vísa til ölvunar. Í Vísi 1916 segir: „Það vita allir, að mannræfill sá, sem hér gengur undir nafninu Tólfkongavitsvefarinn, hefir um mörg ár verið miður sín fyrir ofdrykkju sakir.“ Í Óðni 1926 segir: „Nokkuð drakk hann, eins og flestir gerðu á yngri árum hans, þó sjaldan svo, að hann yrði miður sín af víni.“ Í Dýraverndaranum 1927 segir: „Var talið, að reynslan hefði fært honum oftsinnis heim sanninn um þetta, þegar hann í ferðum varð ofurölvi og miður sín.“ Í Tímanum 1945 segir: „Voru sumir stundum góðglaðir af víni, en ekki man ég eftir að neinn yrði miður sín þar.“

Einnig eru dæmi um að sambandið sé notað í hnefaleikalýsingum þar sem það er skýrt með ensku orði. Í Alþýðublaðinu 1950 segir: „Nú hófst hörð sókn, og sló Birgir fast og örugglega, og var ekki annað sýnt en að Hansen væri miður sín (groggy) um tíma.“ Í Alþýðublaðinu 1953 segir: „Clausen lendir með ennið í öxl Þorkels og varð miður sín (groggy).“ Enska orðið groggy merkir 'dasaður, ringlaður; reikull í spori, valtur á fótunum'. Það er því ljóst að sambandið er þarna notað um líkamlegt ástand og augljós tengsl milli þessarar notkunar og notkunar sambandsins um ölvun.

En sambandið var ekki eingöngu notað um fólk og skepnur. Í Íslendingi 1943 segir: „Allir hafa þessir flokkar verið miður sín, síðan Landsfundur Sjálfstæðismanna leiddi í ljós, að þau feigðarmerki, sem nú sjást á vinstri flokkunum, skyldu ekki einnig koma í ljós hjá Sjálfstæðisflokknum.“ Í Alþýðublaðinu 1944 segir: „Franski herinn virðist mjög miður sín.“ Í Tímanum 1946 segir: „Morgunblaðið hefir orðið eitthvað miður sín vegna hinnar stuttu greinargerðar Hermanns Jónassonar um breytinguna á útgáfu Tímans.“ Í Þjóðviljanum 1948 segir: „Enda varð þess ekki vart að ríkisstjórnin yrði miður sín af gleði, þegar fréttirnar báust um tilkynningu Bandaríkjastjórnar.“

Algengt var að sambandið væri notað um frammistöðu íþrótta- og listafólks. Í Vísi 1932 segir um kringlukastara: „Hún var svo óheppin, að öll köst hennar voru of lág, svo að hún var um fjórum metrum miður sín en venjulega.“ Þetta er reyndar eina dæmið sem ég hef séð um að miður sín sé notað með mælieiningu. Í Íþróttablaðinu 1947 segir: „Skúli var mjög miður sín og felldi 1,85 þrívegis.“ Í Brautinni 1965 segir: „ÍBV liðið var eitthvað miður sín í þessum leik og náði illa saman.“ Í Degi 1988 segir: „Alfreð virtist miður sín þar til hann skoraði sitt fyrsta mark.“ Í Morgunblaðinu 1975 segir: „Einkum virtust blásararnir miður sín og nokkurs ósamræmis gætti milli einleikara og hljómsveitar.“

Af þessum dæmum er ljóst að merking sambandsins vera miður sín var til skamms tíma mun víðari en nú. Á seinni árum vísar það undantekningarlítið til andlegs ástands. Merkingarþrengingin virðist einkum verða á síðustu 30-40 árum – um 1990 er að mestu hætt að nota sambandið um áfengisneyslu og um frammistöðu íþróttafólks. Þótt síst hafi dregið úr notkun sambandsins undanfarna þrjá áratugi hefur dæmum um vera miður sín af einhverju fækkað mjög. Nú er sambandið langoftast notað án nokkurrar viðbótar, hann er miður sín – skýringin er þá oftast komin áður. Þetta er skemmtilegt dæmi um hvernig notkun algengs orðasambands gerbreytist án þess að við tökum eftir því.