Að vera myrkur í máli

Orðasambandið myrkur í máli er gamalt í málinu, a.m.k. síðan á 18. öld, og var til skamms tíma langoftast notað með neitun – vera ekki myrkur í máli, vera ómyrkur í máli, vera sjaldan myrkur í máli, vera hvergi myrkur í máli o.s.frv. Málfarsbankinn segir: „Orðasambandið vera ekki myrkur í máli (vera ómyrkur í máli) merkir: tala tæpitungulaust, segja hug sinn skýrt og vafningalaust, nota stór orð. Lýsingarorðið myrkur vísar til þess sem er óljóst eða hulið. Þveröfug merking væri: vera myrkur í máli.“ Orðabækur eru á sama máli – segja þetta merkja 'segja skoðun sína fullum hálsi, skýrum orðum' eða 'segja skoðun sína umbúðalaust'.

En á undanförnum áratugum hefur sambandið iðulega verið notað án neitunar og í annarri merkingu. Gísli Jónsson sagði í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1991: „Undarlegt má það kalla, hvernig merking orðasambandsins að vera (ó)myrkur í máli hefur hvolfst við síðustu dagana. Skýrt dæmi var í blaði fyrir stuttu, en þá var sagt að Einar Oddur [Kristjánsson] hefði verið „myrkur í máli“. Í ljós kom við lestur fréttarinnar, að hann hafði einmitt verið ómyrkur í máli, það er að segja talað skýrt og tæpitungulaust.“

Undir þetta tók Jón Aðalsteinn Jónsson í Morgunblaðinu 1992 og benti á „þá hættu, sem móðurmál okkar er í, „ef tekið er upp á því að sleppa forskeyti““. Í Morgublaðinu 2007 talar Jón G. Friðjónsson um „endurtúlkun lo. óhultur‘ öruggur’ sem verður þá hultur, sbr. enn fremur orðatiltækið vera ómyrkur í máli […] sem verður þá ranglega vera myrkur í máli“. Í Morgunblaðinu 2014 talar Baldur Hafstað um dæmi þar sem merkingin hefur „snúist við, líkt og þegar […] orðasambandið „myrkur í máli“ [var] notað um þann sem var „ómyrkur í máli““.

Ekki verður betur séð en allir þessir fræðimenn líti svo á að breytingin felist í viðsnúningi merkingar – að farið sé að nota myrkur í máli í sömu merkingu og ómyrkur í máli. En það er ekki rétt. Í Morgunblaðinu 2010 segist Víkverji hafa „tekið eftir því að nú færist í vöxt að nota orðasambandið myrkur í máli í þeim skilningi að boða váleg tíðindi“, og í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2013 segir „Að e-r sé myrkur í máli er stundum sagt og átt við að þungt sé í þeim sem talar“. Fólk er sem sé farið að skilja myrkur í þessu sambandi þannig að það merki 'svartsýnn, harðorður, neikvæður' eða eitthvað slíkt, frekar en 'óljós, torræður'.

Þetta sést vel á dæmum. „Valdimar Grímsson, þjálfari HK, var myrkur í máli eftir eins marks tapleik sinna manna gegn Haukum síðastliðið miðvikudagskvöld“ segir í DV 2002. „„Þessir útreikningar sýna hvað þróunin hefur verið okkur óhagstæð og lífskjör okkar versnað,“ segir Einar Grétar myrkur í máli“ segir í Fréttablaðinu 2002. „Alan Shearer fyrirliði liðsins var myrkur í máli í garð liðsfélaga sinna að leik loknum og sagði framkomu þeirra smánarlega“ segir í Morgunblaðinu 2005. „Hún er myrk í máli í garð stjórnvalda enda þekkir hún það af eigin raun hversu harðskeytt yfirvöld geta verið“ segir í DV 2012. Ótal fleiri dæmi mætti taka.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um þessa merkingu er í Skólablaðinu 1962: „Björn Björnsson ed. ritar um Skólablaðið og er myrkur í máli. Leiklistargagnrýnin er honum þyrnir í augum, en á öðrum stað í greininni segir hann, að efni blaðsins eigi að vera "um nemendur".“ Í Tímanum 1963 segir: „Hún var myrk í máli og sagði að „79“ væri siðspillandi.“ Í Vísi 1966 segir: „U Thant hefur rætt horfurnar í ársskýrslu sinni til Allsherjarþingsins og í ræðum og var myrkur í máli.“ Í Tímanum 1971 segir: „Ingvi var myrkur í máli um gróðurfar landsins, er hann ræddi í dag við blaðamenn vegna sýningarinnar, og gat þess, hversu gróður landsins væri ofnýttur, að undanskildu gróðurlendinu á Austurlandi.“

Í öllum þessum dæmum sýnir samhengið að merkingin er 'svartsýnn, neikvæður' en ekki 'torræður'. Þessi nýja merking fer að breiðast út á áttunda áratugnum og er orðin nokkuð áberandi um 1990 eins og ráða má af skrifum Gísla Jónssonar og Jóns Aðalsteins Jónssonar sem vitnað var í hér að framan. Yfirgnæfandi meirihluti dæma um myrkur í máli frá síðustu 20 árum á tímarit.is er um nýju merkinguna. Það er því ljóst að hún er orðin mjög föst í sessi. Þótt vissulega megi segja að hún sé nýjung er hún komin upp fyrir a.m.k. 60 árum eins og áður segir.

Merking orða og orðasambanda ræðst af notkun þeirra. Það er engin ástæða til annars en viðurkenna nýju merkinguna í myrkur í máli sem rétt mál – og raunar enginn annar kostur í stöðunni.