Posted on Færðu inn athugasemd

Enginn dagur eins

Í ábendingunum Gætum tungunnar sem birtust upphaflega í dagblöðum 1982 segir:

  • Sagt var: Í þessari vinnu er enginn dagur eins.
  • Rétt væri: Í þessari vinnu eru engir tveir dagar eins.
  • Eða: Í þessari vinnu er enginn dagur sem annar.

Þetta sýnir að orðalag af þessu tagi, þ.e. enginn dagur er eins, hefur verið farið að láta á sér kræla fyrir 40 árum – annars hefði ekki þótt ástæða til að vara við því. Athugun sýnir að þetta orðalag er a.m.k. 70 ára gamalt í málinu og virðist hafa farið að breiðast nokkuð út á áttunda áratug síðustu aldar, en þó einkum á síðasta aldarfjórðungi.

Í Heimilisritinu 1951 segir: „Ég hef sagt, að ferðalög okkar hafi verið viðburðasnauð, og þó var enginn dagur eins.“ Í Vísi 1969 segir: „Mér finnst þetta tilbreytingarríkt og enginn dagur er eins.“ Í Alþýðublaðinu 1971 segir: „En enginn er eins.“ Í Kirkjuritinu 1977 segir: „Og svo auðug er sköpun Guðs að enginn dagur er eins.“ Í DV 1983 segir: „Stíllinn er hið djúpa ego þar sem enginn er eins.“ Í Tímanum 1996 segir: „Það er enginn eins.“ Í DV 1996 segir: „hver þeirra hefur sinn persónuleika og það er enginn eins.“ Eftir þetta fer dæmum ört fjölgandi.

Mörgum finnst setningar af þessu tagi ófullkomnar vegna þess að eins hljóti að kalla á samanburð sem vanti í setninguna – eins og hvað? En það eru í sjálfu sér ekki nægileg rök til að hafna þessu orðalagi vegna þess að í málinu má finna ýmislegt sambærilegt sem þykir gott og gilt. Í setningu eins og það eru allir jafnir má spyrja jafnir hverju? Svipað má segja um dæmi eins og allir eru líkir og systurnar eru ólíkar. Stundum er innbyrðis bætt við til að gera setningarnar ótvíræðar, allir eru líkir inbyrðis, systurnar eru innbyrðis ólíkar, en það er ekki nauðsynlegt – setningarnar skiljast yfirleitt án þess.

Setningar á við enginn er eins merkja ævinlega 'enginn er eins og annar slíkur' – enginn dagur er eins og annar dagur, enginn maður er eins og annar maður o.s.frv. Viðmiðið er í raun innbyggt í eins, alveg á sama hátt og það er innbygt í ólíkar í systurnar eru ólíkar sem merkir 'systurnar eru ólíkar hvor/hver annarri'. Í báðum tilvikum er hægt að breyta samanburðinum með því að nefna viðmiðið sérstaklega – enginn dagur er eins og brúðkaupsdagurinn, systurnar eru ólíkar mömmu sinni (sem segir ekkert um hvort systurnar séu líkar eða ólíkar hvor/hver annarri). En sé viðmiðið ekki nefnt eru setningarnar túlkaðar þannig að það sé innbyggt.

Það er sem sé ekki hægt að hafa það á móti setningum á við enginn dagur er eins að þær séu „órökréttar“ eða eigi sér ekki hliðstæðu í málinu. Hins vegar er ekki langt síðan þetta orðalag fór að breiðast út og þess vegna hljómar það ankannanlega í eyrum margra sem ekki hafa alist upp við það. Ég lét þetta lengi vel fara í taugarnar á mér og skil vel fólk sem sama gildir um. En hér gildir að sýna umburðarlyndi gagnvart mismunandi málvenjum þótt þær falli ekki að manns eigin málkennd. Þetta orðalag er orðið fast og útbreitt í málinu og ekki ástæða til að berjast gegn því. Hér finnst mér eiga við að vitna í sjálfan mig:

„Ef tiltekin nýjung hefur komið upp fyrir 20 árum eða meira, er farin að sjást í rituðu máli, nokkur fjöldi fólks hefur hana í máli sínu, og börn sem tileinka sér hana á máltökuskeiði halda henni á fullorðinsárum, finnst mér mál til komið að viðurkenna hana sem málvenju og þar með „rétt mál“. Það þarf ekki endilega að þýða að hún sé talin æskileg í hvaða málsniði sem er, en það þýðir að hún er ekki fordæmd og fólk sem hefur hana í máli sínu er ekki litið hornauga eða hneykslast á því.“ Það er ljóst að þetta orðalag uppfyllir öll framangreind skilyrði og vel það. Málfarsbankinn segir líka: „Vel gengur að segja engir dagar eru eins.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Einelti og að einelta

Orðið einelti er mjög algengt í nútímamáli og kemur fyrir í ýmsum samböndum – talað er um alvarlegt einelti, gróft einelti, mikið einelti, verða fyrir einelti, þola einelti, beita einelti, gerendur eineltis, þolendur eineltis, fórnarlömb eineltis og margt fleira. Orðið er gamalt í málinu en lengst af kom það nær eingöngu fyrir í sambandinu leggja í einelti. Undantekningar eru örfáar, t.d. „þá finst mér ástæða til að átelja verðlagsnefndina, fyrir alveg óskiljanleg mistök og einkennilegt einelti við mjólkursöluverðið“ í Landinu 1916 og „Þetta var upphaf eineltis, sem átti eftir að taka á sig æ ískyggilegri mynd“ í Morgunblaðinu 1969. Dæmi eru um að einelti sé haft í kvenkyni, og kvenkynsmyndin einelta kemur einnig fyrir í fáeinum gömlum dæmum, þ. á m. einu frá um 1500.

Árið 1975 lagði Halldór Halldórsson prófessor til að orðið einelti yrði tekið upp sem þýðing á interception í flugmáli, og sú merking orðsins er gefin í FlugorðasafniÍðorðabankanum). Um þessa tillögu sagði hann: „Það má vera, að sumum virðist það furðudjarft að taka orð, sem aðeins er notað í einu orðasambandi, í þessu tilviki að leggja einhvern í einelti, og gefa því nýja merkingu. Ég skil þetta sjónarmið vel, en er þó ekkert hræddur við slíkar nýmyndanir. […] Við nýyrðamyndun verður að beita flestum tiltækum ráðum. Orð úr orðtökum eru að þessu leyti enginn helgur dómur.“ Halldór hefði varla lagt þetta til ef orðið hefði þá verið farið að breiðast út í öðrum samböndum en með leggja.

En um eða rétt fyrir 1980 var orðið slitið frá sögninni leggja og farið að nota það sem íðorð í uppeldisfræði og fleiri greinum sem samsvörun við mobbing (eða bullying) á ensku. Í Dagblaðinu 1981 segir „Þá er sagt að fjölskylda hans hafi hjálpað honum að byggja upp þennan blekkingavef í því skyni að losa hann úr eineltinu“, og í Tímariti Máls og menningar 1982 segir „Einar Hjörleifsson skrifaði um einelti og stríðni í skólanum“. Í NT haustið 1984 er opnugrein sem heitir „Er barnið þitt beitt ofbeldi í skólanum?“ og þar kemur orðið einelti fyrir í ýmsum samböndum þannig að það er greinilega komið í umferð sem íðorð. Dæmum um orðið fer svo mjög ört fjölgandi á tíunda áratugnum og einkum á þessari öld.

Stundum bregður sögninni einelta einnig fyrir. Elsta dæmið um hana er í „Rökfræði“ Arnljóts Ólafssonar í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1891, en merkingin er þar nokkuð önnur en í nafnorðinu. En í Íslendingi 1919 segir „Virðist ekkert annað mál komast að hjá Degi sjálfum, þegar hann er að einelta Björn Líndal“. Þarna merkir sögnin greinilega 'leggja í einelti'. Sama máli gegnir um dæmi úr Neista 1950: „Ein af starfsaðferðum kommúnista er að einelta forystumenn Alþýðufl.“, og úr Lesbók Morgunblaðsins 1963: „Hann eineltir okkur — andskotinn!“ Fáein dæmi eru svo frá síðustu 30 árum, eftir notkun nafnorðsins einelti jókst. Halldór Halldórsson stakk reyndar upp á sögninni einelta sem þýðingu á intercept árið 1975 en sú tillaga virðist ekki hafa hlotið hljómgrunn.

En sögnin einelta er sjaldgæf enn sem komið er og kemur mörgum spánskt fyrir sjónir eins og aðrar nýjungar í máli. Stundum er hún kennd við barnamál: „Einelti er svo mikið rætt í skólunum að börnin hafa mörg hver gert nafnorðið að sögn og hafa ófáir kennarar brosað í laumi yfir orðavali nemenda sinna sem segja „Hann var að einelta hana““ segir í Fréttatímanum 2012. En ekki verður séð að neitt sé athugavert við þessa sögn. Samsettar sagnir með -elta sem síðari lið eru til í málinu, s.s. hundelta. Því er líka oft haldið fram að íslenska sé „sagnamál“, og betra sé að nota eina sögn en samband sagnar og nafnorðs ef þess er kostur – tala um að kanna frekar en gera könnun, rannsaka frekar en framkvæma rannsókn, o.s.frv. Ég er ekki að leggja til að við hættum að tala um að leggja í einelti – en er ekki ágætt að eiga kost á að nota sögnina einelta í staðinn?

Einnig veltir fólk stundum fyrir sér hvaða orð sé heppilegt að nota um gerendur eineltis. Ýmis orð hafa verið notuð, s.s. hrekkjusvíntuddieineltishrotti o.s.frv. en í ljósi þess að einelti er nú notað sem íðorð eins og áður segir væri heppilegt að eiga kost á að nota íðorð sem svarar nákvæmlega til þess um gerendur. Ég hef stungið upp á orðinu eineltir. Það er lipurt og hefur skýr tengsl við einelti. Í almennu máli er auðvitað hægt að halda áfram að nota hrekkjusvín og önnur orð sem áður er vísað til.

Posted on Færðu inn athugasemd

Áhrifslausar forsetningar

Forsetningin frá stjórnar alltaf þágufalli og forsetningarnar til og milli stjórna alltaf eignarfalli. Eða næstum alltaf. Undantekning er þegar þessar forsetningar eru notaðar í samböndum sem tákna afstöðu tveggja stærða eða upphæða hvorrar til annarrar. Nokkur dæmi af tímarit.is: „aðgerðin myndi taka allt frá tvo upp í átta tíma“, „ímynda sér að þeir væru að borða frá þrjá og upp í 30 gómsæta M&M-súkkulaðimola“, „Refirnir framleiða að meðaltali þrjá til fjóra hvolpa á ári, oturinn frá fjóra til sex hvolpa á ári“, „væri hægt að spara milli tvo og þrjá milljarða á ári í heilbrigðisþjónustunni“, „Með stofnun félagsins innleysir FL Group milli þrjá og fjóra milljarða í hagnað“, „hann féll milli fjóra og fimm metra niður af klettasyllu“, „maður kom alltaf með einn til tvo kassa af bjór með sér úr túrum“, „Á hverju fagsviði verður samið við tvo til þrjá aðila“.

Þarna koma fyrir samböndin frá tvo til, frá þrjá til, frá fjóra til; milli tvo og, milli þrjá og, milli fjóra og; X til tvo, X til þrjá, X til fjóra. Það eru bara tölurnar einn, tveir, þrír og fjórir sem beygjast þannig að ástæðulaust er að skoða hærri tölur. Ég vel eingöngu dæmi með karlkyni vegna þess að þar er hægt að sjá fallið ótvírætt – í kvenkyni og hvorugkyni eru nefnifall og þolfall eins (tvær/tvö, þrjár/þrjú, fjórar/fjögur), og í sama gildir um karlkyn tölunnar einn. Í öllum þessum dæmum er hins vegar ótvírætt um þolfall að ræða vegna þess að engin tvö föll hafa sömu mynd í karlkyni talnanna tveir, þrír og fjórir. Í fljótu bragði virðist því sem forsetningarnar frá, milli og til stjórni þolfalli í slíkum dæmum þótt þær stjórni þágufalli og eignarfalli annars.

En málið er ekki svo einfalt. Það er nefnilega hægt að finna fjölda dæma um að þessar forsetningar virðist stjórna þágufalli í sambærilegum dæmum – ekki bara frá, heldur líka milli og til. „24 sakborningar voru ákærðir fyrir brot gegn fleiri börnum (frá tveimur til sex)“, „við getum tekið við allt frá tveimur til tólf gestum í heimsókn í einu“, „munar sennilega milli tveimur til þremur metrum“, „Má ætla að Sambandið hafi tapað á milli tveimur og þremur milljörðum króna“, „Guðjón sem leikstýrir milli tveimur og fjórum sýningum á ári“, „meðal annars varið milli þremur og fjórum þúsundum króna til þess að endurbæta íþróttavöllinn“, „Á milli þremur og fjórum milljörðum króna var lýst í bú hans“, „þá var lagt upp með að hún væri í tveimur til fjórum senum“.

Ef að er gáð kemur í ljós að á undan sambandinu kemur alltaf sögn eða forsetning sem stýrir þágufalli: brot gegn tveimur börnum, tekið við tveimur gestum, munar tveimur til þremur metrum, tapaði tveimur milljörðum, leikstýrir tveimur sýningum, varið þremur þúsundum, lýsti þremur milljörðum, í tveimur til fjórum senum. Í dæmum með frá gæti þágufallið vissulega verið komið þaðan frekar en frá sögn eða forsetningu þar á undan, en í dæmum með milli og til hlýtur þágufallið að vera komið frá viðkomandi sögn eða forsetningu. Eina skýringin á þessu er sú að forsetningarnar frá, milli og til stjórni í raun alls ekki falli í þessum samböndum heldur hleypi fallstjórn undanfarandi sagnar eða forsetningar í gegnum sig, ef svo má segja. Á eftir frá, milli og til kemur þess vegna þolfall ef sögnin eða forsetningin á undan stýrir þolfalli, þágufall ef hún stýrir þágufalli.

Hér verður þó að hafa fyrirvara. Það er nefnilega stundum hægt að láta forsetningarnar stýra sínum „eðlilegu“ föllum í þessum samböndum, í dæmum eins og „Húsin höfðu frá tveimur til fjögra palla“ (í stað tvo til fjóra palla), „munu þær hafa tekið frá þremur til fjögurra marka“ (í stað þrjár til fjórar merkur), „er fjöldi þeirra nú á milli tveggja og þriggja milljóna á ári“ (í stað tvær og þrjár milljónir) o.fl. Ég hef ekki skoðað við hvaða aðstæður bæði afbrigðin ganga, eða hvort annað afbrigðið er skyldubundið við tilteknar aðstæður. Einnig verður að benda á að þetta er bundið við að um tölur sé að ræða. Í öðrum tilvikum stjórna forsetningarnar venjulegum föllum: frá hausti til vors, frá Reykjavík til Akureyrar, milli fjalls og fjöru, milli Hellu og Hvolsvallar o.s.frv.