Fáum unga fólkið til liðs við íslenskuna

Einn megintilgangurinn með stofnun hópsins Málspjall á Facebook var að skapa vettvang fyrir jákvæða málfarsumræðu, lausa við leiðréttingar og athugasemdir við málfar einstakra málnotenda og hópa. Þetta hefur gengið ágætlega og umræða í hópnum hefur verið lífleg og að mestu málefnaleg. En það er einn stór galli á umræðunni, eins og annarri opinni íslenskri málfarsumræðu, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum: Hún er nær eingöngu á forsendum fullorðna fólksins, jafnvel fólks sem er komið yfir miðjan aldur. Aðeins um 6% félaga í þessum hópi eru undir 25 ára aldri, rúm 20% undir 35 ára, og innan við 40% undir 45 ára aldri. Ég ímynda mér að hlutfallið sé síst betra í öðrum málfarshópum.

Þetta er mjög óheppilegt. Við sem eldri erum horfum á tungumálið út frá okkur sjálfum, eins og það var þegar við vorum að alast upp. Og við viljum flest að það haldist þannig – hversu jákvæð og umburðarlynd sem við viljum vera er erfitt að komast hjá því að finnast mörg ný orð kjánaleg eða ljót, pirra sig á breyttum beygingum eða fallstjórn, hneykslast á enskuslettum og hafa áhyggjur af því á hvaða leið íslenskan sé. Þannig hefur þetta alltaf verið, þannig er þetta víðast hvar, og þetta er ekkert óeðlilegt. Við horfum á málið frá okkar eigin sjónarhóli, vegna þess að við höfum engan annan. Þess vegna er svo mikilvægt að fá fleiri sjónarmið inn í þessa umræðu.

Ungt fólk er vant því að það sé talað niður til málfars þess og hneykslast á því, talað eins og það sé að fara með íslenskuna í hundana. Slíkt tal er sannarlega ekki til þess fallið að efla áhuga unga fólksins á íslenskunni eða hvetja það til þess að nota hana sem mest. Þvert á móti – það stuðlar að því að hrekja fólk í fang enskunnar. Nýlegar rannsóknir sýna að framhaldsskólanemar tengja íslensku við skyldu, leiðréttingar, orðflokkagreiningu o.þ.h. en enska tengist aftur á móti afþreyingu, ferðalögum og skemmtun í huga þeirra. Það er auðvelt að ímynda sér hvaða áhrif þetta hefur á viðhorf þeirra til málanna, en rannsóknir sýna að viðhorf ungs fólks til móðurmálsins er eitt af því sem skiptir mestu máli fyrir lífsmöguleika þess.

Þess vegna heiti ég á ykkur að breyta þessu. Hlustið á unga fólkið með opnum huga og takið eftir nýsköpuninni í máli þess. Ræðið við það án fordóma um tungumálið og hvetjið það til að velta málinu og málnotkun sinni fyrir sér. Fáið það til að taka þátt í málfarsumræðu og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Reynið á allan hátt að stuðla að því að viðhorf þess til íslenskunnar verði jákvætt – en forðist samt fyrir alla muni hvers kyns þjóðrembu og hugmyndir um yfirburði íslenskunnar yfir önnur mál. Framtíð íslenskunnar er á valdi unga fólksins – ef við höfum það ekki með okkur skiptir engu máli hvað við þessi eldri segjum og gerum.