Fjórð
Það virðist ekki vera fyrr en seint á 19. öld sem farið er að tala um einstaka hluta klukkustundar með sérstökum nöfnum. Þannig kemur orðið hálftími ekki fyrir á tímarit.is fyrr en 1870, og þótt talað sé um fjórðung stundar a.m.k. frá 1863 kemur sérstakt orð, stundarfjórðungur, fyrst fyrir 1874. Elsta dæmi um kortér er svo í Iðunni 1865 þar sem segir: „Oskar leit á úrið sitt; klukkan var 9¼; það voru þrjú kortér enn þangað til hann gat komizt um borð.“ Myndin korter kemur fyrst fyrir á tímarit.is í Vestra 1903: „Korteri síðar heyrðu þau James og Alika rödd Murbrigde í anddyrinu.“ Eldra dæmi er þó til í málinu; samkvæmt Ritmálsskrá Árnastofnunar kemur orðið fyrir í bréfi frá 1865 í bókinni Skrifarinn á Stapa: „Kl. eitt korter til 8 kom litla Sigga inn.“ Orðið korter/kortér er tökuorð úr dönsku – þótt venjulega myndin sé þar kvarter kom myndin korter einnig fyrir áður fyrr.
Stundum hefur verið amast við þessu orði og það ekki þótt nógu íslenskulegt. Í Kennslubók í enskri tungu eftir Halldór Briem frá 1875 segir: „Hún er eitt „kortjer“ yfir átta.“ Í neðanmálsgrein segir: „Á hreinni íslenzku væri þetta: Það lifa þrír fjórðungar hinnar níundu stundar“ (tekið úr Ritmálssafni Árnastofnunar). En málvöndunarmenn hafa þó yfirleitt sætt sig við þetta orð, kannski með smávegis óbragð í munni: „Ég býst ekki við, að þeir séu mjög margir, sem tala um stundarfjórðung, heldur aðeins korter (eða kortél), enda þótt það sé danskt tökuorð og ekki eldra en frá 19. öld“ sagði Jón Aðalsteinn Jónsson í Morgunblaðinu 1998, og Gísli Jónsson segir í Morgunblaðinu 1997: „Auk þess fær Jón Ormar Edwald væna plúsa fyrir góða skjátexta fyrr og síðar, og ekki gleymir hann orðinu fjórðungur í stað „kortér (korter, kortél)“.“
Það er kannski ekki undarlegt að korter hafi haft betur í baráttunni við stundarfjórðung sem er miklu lengra og stirðara orð. En reyndar hefur verið gerð tilraun til að innleiða lipurt íslenskt orð í þessari merkingu. Í Reykjavík 1903 segir: „Miss Loveday var eitthvað þrjár fjórðir að rannsaka alt í herberginu“ og á eftir fjórðir er vísað í neðanmálsgrein þar sem segir: „ein fjórð = ¼ klukkustundar. Mál vort hefir skort eitt handhægt orð yfir það.“ Næstu ár á eftir koma svo fyrir fáein dæmi um orðið fjórð, nær öll í Reykjavík en eitt þó í Fjallkonunni 1910: „Hann var þrjár fjórðir stundar á leiðinni.“ Samsetningin stundarfjórð kemur líka nokkrum sinnum fyrir, oftast í Reykjavík en einu sinni í Dagblaðinu 1906. Orðið er líka notað í annarri samsetningu sem vísar ekki til tíma í Reykjavík 1905: „Skipum og bátum er hér með aðvörun gefin um að koma ekki nær beitiskipinu en tvær mílu-fjórðir (½ mílu).“
Ég hef ekki fundið dæmi um að orðið fjórð hafi verið notað eftir 1910, og það virðist ekki hafa komist í neinar orðabækur. Þetta er samt ágætt orð sem íslenskan væri fullsæmd af, en líklega er of seint að koma því inn í málið í staðinn fyrir korter.