Þriðjar á svið
Í frásögn vefmiðils af söngvakeppni sjónvarpsins síðasta laugardagskvöld stóð: „Reykjavíkurdætur voru þriðjar á svið í kvöld með lagið Tökum af stað.“ Sumum brá við að sjá orðmyndina þriðjar og könnuðust ekki við hana sem beygingarmynd af raðtölunni þriðji eins og hún átti þó augljóslega að vera. Eins og allar aðrar raðtölur nema fyrstur og annar beygist þriðji eins og lýsingarorð í veikri beygingu þar sem fleirtala allra kynja endar á -u í öllum föllum (hinir góðu karlar, hinar góðu konur, hin góðu börn). Þarna ætti því að réttu lagi að standa Reykjavíkurdætur voru þriðju á svið í kvöld með lagið Tökum af stað. En hvernig í ósköpunum stendur á myndinni þriðjar? Er hægt að skýra hana á einhvern hátt?
Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Fyrstur er eina raðtalan sem beygist bæði sterkt og veikt.“ Ef Reykjavíkurdætur hefðu riðið á vaðið í keppninni hefði staðið Reykjavíkurdætur voru fyrstar á svið, ekki *fyrstu á svið – sterka beygingin hefði verið notuð en ekki sú veika. Sama máli gegnir ef þarna hefði verið lýsingarorð en ekki raðtala – þá hefði staðið Reykjavíkurdætur voru fljótar / snöggar / snarar á svið, ekki *fljótu / *snöggu / *snöru. Ef Reykjavíkurdætur hefðu verið næstfyrstar á svið hefði staðið Reykjavíkurdætur voru aðrar á svið, enda er það eini möguleikinn eins og bent er á í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls þar sem segir: „Raðtalan annar beygist ekki veikt en hefur sömu stöðu í setningu og aðrar raðtölur.“
Í þessari setningarstöðu, Reykjavíkurdætur voru ___ á svið, kemur því alltaf orð í sterkri beygingu ef hún er í boði – af raðtölunum fyrstur og annar, og af öllum lýsingarorðum. Þegar búið er að segja hverjar voru fyrstar á svið og aðrar á svið mætti því virðast eðlilegt að segja hverjar voru þriðjar á svið. Það er eiginlega afbrigðilegt að fá þarna orð í veikri beygingu þannig að þriðjar er í raun og veru myndin sem búast mætti við – lítur út eins og dæmigerð sterk beyging lýsingarorðs í kvenkyni fleirtölu. Gallinn er bara að þessi mynd er ekki til sem hluti af beygingardæmi raðtölunnar þriðji í hefðbundnu máli – „Raðtölur aðrar en fyrstur og annar beygjast eins og lýsingarorð í veikri beygingu“ eins og segir í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.
Það má samt finna slæðing af sambærilegum dæmum. Í Tímanum 1960 segir: „Þriðjan og síðastan hittum við Þorstein Vilhjálmsson.“ Í DV 1986 segir: „Langstærstur hluti viðskiptavina Guðmundar Jónassonar eru útlendingar, þar eru Svisslendingar og Þjóðverjar fjölmennastir en þriðjir er Bretar.“ Í Helgarpóstinum 1995 segir: „Árið 1992 valdi Dallas Jimmy Jackson fjórðan.“ Í Vísi 2012 segir: „Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Borgarleikhússins, er þriðjur í röðinni.“ Á mbl.is 2014 segir: „Pollapönkararnir eru fjórðir á svið.“ Á fótbolti.net 2021 segir: „Hann var fimmtur á svið fyrir England og varð að skora.“ Í Vísi 2015 segir: „hann er tilnefndur til Óskarsverðlaunanna, fimmtur Íslendinga.“ Hér finnst mér veika beygingin, fimmti Íslendinga, vera frekar óeðlileg þótt slík dæmi megi vissulega finna.
Þetta er alls ekki tæmandi upptalning á þeim dæmum sem ég hef rekist á þótt þau séu vissulega ekki ýkja mörg. Þau sýna að ákveðinnar tilhneigingar gætir til að fella raðtölurnar að beygingu lýsingarorða – gefa þeim sterka beygingu þegar þau eru notuð í setningarstöðu þar sem lýsingarorð (og fyrstur og annar) myndu hafa sterka beygingu. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt og raunar jákvætt að því leyti að það sýnir tilfinningu málnotenda fyrir kerfinu – sýnir að þeir átta sig á því að þarna „ætti“ ekki að vera veik beyging og leitast við að bæta úr því. En jafnframt er þetta vissulega neikvætt að því leyti að þarna er gengið gegn málhefð – ekki bara búnar til orðmyndir sem ekki eru fyrir í beygingunni, heldur beinlínis búa til nýja málfræðilega formdeild í raðtölunum, sterka beygingu.
Ég get ekki neitað því að sem málfræðingi finnst mér þessi dæmi bæði merkileg og skemmtileg – og þau hljóma ekki sérlega óeðlilega í mínum eyrum. En þótt þau eigi sér eðlilegar og auðfundnar skýringar eru þau vissulega ekki í samræmi við málvenju og geta þess vegna ekki talist rétt mál.