Hinir fjóru stóru funduðu í fjóran og hálfan dag

Í gær var ég að skrifa um það þegar búnar eru til sterkar myndir af raðtölum eins og þriðji, fjórði og fimmti sem venjulega hafa aðeins veika beygingu. Þetta gerist stöku sinnum þegar raðtölurnar standa í setningarstöðu þar sem sterk beyging lýsingarorða væri notuð, eins og Reykjavíkurdætur voru þriðjar á svið. En öfugt við raðtölur hafa frumtölur aðeins sterka beygingu. Við segjum fjórir menn, sbr. góðir menn, en ekki *hinir fjóru menn þótt sagt sé hinir góðu menn. Reyndar er alls ekki hægt að hafa neina mynd töluorða í þessari setningarstöðu því að það er ekki heldur hægt að nota sterku beyginguna – „„hinir fjórir menn“ er því rangt mál fyrir: þeir fjórir“ segir Valdimar Ásmundsson í Ritreglum (1899).

Það eru samt til dæmi um veika beygingu töluorðsins fjórir, í sambandinu (hinir/hinar/hin) fjóru stóru sem 142 dæmi eru um á tímarit.is og hefur verið notað um margs konar fereyki. Elsta dæmið er í myndatexta í Fálkanum 1938: „Efst á myndinni er húsið í München, þar sem „hinir fjóru stóru“, Hitler, Chamberlain, Mussolini og Daladier, komu saman á dögunum til þess að gera út um örlög Evrópu.“ Síðar var þetta iðulega notað um Bandaríkin, Sovétríkin, Bretland og Frakkland, og um leiðtoga þeirra. Í DV 2010 segir „Chelsea hefur átt mögnuðu gengi að fagna gegn hinum þremur liðunum af þeim fjóru stóru, Manchester United, Arsenal og Liverpool.“ Fjöldamargt fleira mætti nefna.

Af frumtölunum eru það bara fjórar þær fyrstu, einn, tveir, þrír og fjórir, sem beygjast í kynjum og föllum og hafa eingöngu sterka beygingu eins og áður segir – nema einn sem hefur veiku myndina eini en hún er þó yfirleitt frekar talin til lýsingarorðsins einn. En veik mynd kemur aðeins fyrir af fjórir sem er eðlilegt. Karlkyns- og kvenkynsmyndirnar, fjórir og fjórar, hafa sömu endingar og lýsingarorð – góðir, góðar. Það er því ekki óeðlilegt að að út frá sterku beygingunni sé búin til veik mynd hliðstæð veikri beygingu lýsingarorða – fjórir/fjórar – fjóru, sbr. góðir/góðar góðu. Myndirnar tveir/tvær og þrír/þrjár eru ólíkar lýsingarorðsmyndum og bjóða ekki upp á samsvarandi veika mynd. Við þetta bætist auðvitað rímið – fjóru – stóru.

En þetta er ekki eina afbrigðilega beygingarmyndin sem fjórir getur fengið. Sambandið fjóran og hálfan kemur fyrir 133 sinnum á tímarit.is, fyrst í Morgunblaðinu 1914. Dæmum um þetta fjölgar verulega á níunda áratugnum. Oftast er talað um fjóran og hálfan vinning en ýmis önnur nafnorð koma einnig fyrir í þessu sambandi. Gísli Jónsson tók þetta nokkrum sinnum fyrir í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu, og Haraldur Bernharðsson fjallaði um það í Íslensku máli 2004 og sagði: „Það er líka ekki alveg dæmalaust að töluorð fái lýsingarorðsbeygingu í nútímamáli; að minnsta kosti fær fjórir gjarna lýsingarorðsbeyginguna fjóran í stað töluorðsbeygingarinnar fjóra í þolfalli í karlkyni […] Það er […] nábýlið við lýsingarorðið hálfur sem truflar og hefur áhrif á töluorðið.“

Hér gegnir sama máli: Vegna þess að fjórir hefur dæmigerða mynd lýsingarorðs í sterkri beygingu hafa málnotendur tilhneigingu til að fara með það sem slíkt. Það gerist þó ekki nema fyrir ákveðin umhverfisáhrif. Í fyrra dæminu, fjóru stóru, er það rímið við stóru sem veldur – myndin fjóru kemur nær eingöngu fyrir í því sambandi þótt reyndar megi finna tvö dæmi um fjóru sterku á tímarit.is. Myndin fjóran sem lítur út eins og lýsingarorð í þolfalli eintölu karlkyni (sbr. stóran) kemur eingöngu fyrir með hálfan sem tengist væntanlega því að á eftir hálfan kemur nafnorð í eintölu en ekki fleirtölu. Málnotendum finnst þá að töluorðið á undan, fjórir, eigi einnig að hafa dæmigerða eintölumynd. Þetta getur eingöngu komið til með töluorðinu fjórir því að myndirnar tveir og þrír eru ólíkar lýsingarorðum eins og áður segir.