Langlokur sem enginn les?

Ég fékk þá athugasemd nýlega við einn af mínum löngu pistlum hér hvort unga fólkið sem ég tala oft um myndi nenna að lesa þetta. Það veit ég auðvitað ekkert um, og kannski er það ekki líklegt miðað við útbreiddar skoðanir á lestrarhæfni og lestraráhuga ungs fólks. Hvorugt skyldi samt vanmeta. En ég er ekki að skrifa þessa pistla fyrir unga fólkið sérstaklega. Tilgangur minn með þeim er ekki síst að ná til fullorðins fólks, jafnvel fólks á mínum aldri, sem ólst upp við það eins og ég að eitt tilbrigði málsins væri ótvírætt rétt en önnur röng, og jafnvel við það að hafa skömm á öðrum tilbrigðum en því rétta og líta niður á fólk sem notaði röngu tilbrigðin.

Mig langar nefnilega til að sýna fólki fram á að þetta er ekki svona einfalt. Íslenskan á sér ýmis tilbrigði og iðulega er hægt að skýra hvernig og hvers vegna þau koma upp, og það er það sem ég er að reyna að gera. Ég á þá hugsjón að auka jákvæðni, umburðarlyndi og virðingu í íslenskri málfarsumræðu og hef þá bjargföstu trú að skilningur og þekking á tilbrigðunum stuðli að umburðarlyndi gagnvart þeim og geri okkur víðsýnni. Þetta umburðarlyndi nái þá jafnframt til viðhorfa okkar til máls unga fólksins, geri okkur jákvæðara og skilningsríkara gagnvart því, og þannig komi pistlar mínir unga fólkinu að gagni hvort sem það les þá eða ekki.

En svo getur auðvitað verið að það sé ekki bara unga fólkið sem finnst þessar langlokur óárennilegar – ég hef ekki hugmynd um hversu mörg endast til að lesa þær og kannski eru það bara sárafá. Það er líka í góðu lagi því að ég er fyrst og fremst að gera þetta fyrir sjálfan mig. Þegar ég fór á eftirlaun auglýsti ég eftir hugmyndum að einhverju hobbíi sem ég gæti farið að stunda. Ég fékk tvær tillögur: ættfræði og golf. Hvorugt fannst mér sérlega fýsilegt, og ekki heldur bingóspil, harmonikuleikur, gömlu dansarnir eða hvað það nú er sem fólk heldur að hæfi gamlingjum. Þess vegna hélt ég bara áfram því sem ég hafði verið að gera – að skrifa um málfræði.

Nema nú er það hobbí en ekki vinna. Og ég gæti ekki hugsað mér skemmtilegra hobbí. Þótt ég vonist vissulega til að hafa einhver áhrif á viðhorf fólks eins og áður segir er það því ekkert aðalatriði fyrir mér hvort fólk endist til að lesa pistlana mína. Ég hef allavega ofan af fyrir mér með því að skrifa þá.