Hin ýmsu

Íslensk lýsingarorð hafa bæði svokallaða sterka beygingu (góður / góð / gott) og veika ((hinn) góði/ (hin) góða / (hið) góða). Meginreglan er sú að sterka beygingin er notuð þegar lýsingarorðin standa sjálfstæð eða með óákveðnum nafnorðum (án greinis) – hann er góður, góð bók. Veika beygingin er notuð þegar lýsingarorðin standa með ákveðnum nafnorðum (þ.e. með ákveðnum greini) eða ábendingarfornöfnum – góða bókin, hin góða bók. Frá þessu eru þó ýmsar undantekningar. Beyging ýmissa fornafna og töluorða ber talsverðan svip af beygingu lýsingarorða, en þau hafa þó yfirleitt aðeins sterka beygingu. Undantekning er raðtalan fyrstur sem hefur einnig veiku beyginguna fyrsti, og svo raðtölurnar þriðji og fjórði sem aðeins beygjast veikt eins og ég skrifaði nýlega um.

Þó eru þess dæmi að fornöfn eigi sér veikar myndir, einkum óákveðna fornafnið ýmis. Í málfarsþætti í Þjóðviljanum 1958 birtist bréf þar sem segir: „Ég minnist þess ekki, að þeir, sem rætt hafa eða ritað um íslenzka tungu, hafi minnzt á orðtakið hinir ýmsu, sem sjá má og heyra daglega í ræðu og riti, jafnvel lærðra manna. En mér finnst þetta ein hin aumasta rasbaga í íslenzku máli […].“ Þarna er ýmis sem sé notað með ábendingarfornafni, í setningarstöðu þar sem lýsingarorð myndi hafa veika mynd (hinir góðu). En aðeins fáeinir tugir dæma finnast um sterku beyginguna í þessari stöðu, t.d. „Þetta ætlum við að rannsaka og sjá hve djúpt úr jörðu hinar ýmsar bergtegundir eru komnar“ í Morgunblaðinu 1936 og „Annars eru hinir ýmsir hlutar bílsins frá mörgum fyrirtækjum“ í Tímanum 1966.

Mér finnst þessi dæmi mjög óeðlileg en veika beygingin aftur á móti mjög eðlileg. Um hana eru hátt í 160 þúsund dæmi á tímarit.is, það elsta í Skírni 1851. Það er athyglisvert að af 40 elstu dæmunum, frá 1850-1859, eru 36 úr Þjóðólfi en aðeins fjögur úr öðrum ritum. Á næsta áratug bætast við dæmi úr nokkrum öðrum ritum þótt áfram séu flest dæmin úr Þjóðólfi. Það leikur varla vafi á að þau má rekja til Jóns Guðmundssonar sem varð ritstjóri blaðsins síðla árs 1852, en dæmi um umrætt orðasamband fara að sjást í því árið 1853. Jón var ritstjóri Þjóðólfs til 1874 og eftir það fer dæmum um sambandið fækkandi í blaðinu. Það er líka ekki óhugsandi að áðurnefnt dæmi í Skírni sé einnig komið frá Jóni – hann var ritstjóri Skírnis 1852 en gæti einnig hafa komið nálægt árgangnum 1851 án þess að ég geti fullyrt það.

Ég sé ekki betur en allar hugsanlegar myndir veikrar beygingar af ýmis komi fyrir – í þremur kynjum, tveimur tölum og fjórum föllum. Eintalan er vissulega margfalt sjaldgæfari en fleirtalan en það eru þó hátt í 500 dæmi um hana, svo sem „Sömuleiðis að hinn ýmsi litur jurta og blóma, stafi frá áhrifum sólarljóssins á jurtalífið“ í Dagskrá 1897, „Skólar, verksmiðjur og hin ýmsa starfsemi gengur nú sinn vana gang“ í Vísi 1977 og „Ástæðan fyrir lyktinni er sú að kjötvinnslan Kjarnafæði, sem er í næsta húsi við Rúvak, hefur verið dugleg við að reykja hið ýmsa kjötmeti“ í Degi 1987. Það er rétt að hafa í huga að hið sama gildir um hina „hefðbundnu“ sterku beygingu orðsins, að eintalan er þar margfalt sjaldgæfari en fleirtalan, sem er skiljanlegt út frá merkingu orðsins.

Flest höfum við væntanlega lært að ýmis sé óákveðið fornafn, og í Málfarsbankanum segir: „Orðið ýmis er að uppruna fornafn og því er ekki talið æskilegt að segja „hinir ýmsu menn“ eða „hinir ýmsustu aðilar“ enda er ýmis þá sett í stöðu lýsingarorðs. Fremur: ýmsir menn, alls konar fólk, mismunandi aðilar o.s.frv.“ En ýmis er reyndar greint sem lýsingarorð í flestum uppflettiritum um fornmálið, t.d. orðabók Fritzners, Norrøn grammatikk eftir Iversen, fornmálsorðabókinni í Kaupmannahöfn o.v. Sigfús Blöndal greinir orðið líka þannig í Íslensk-danskri orðabók. Við það bætist svo tilhneiging orðsins til að stigbreytast, hinir ýmsustu, en væntanlega er þar samt ekki um raunverulega stigbreytingu að ræða eins og ég hef áður skrifað um.

Andstaðan við þetta orðalag virðist byggjast á því að sem fornafn „eigi“ það ekki að hafa þessa beygingu eða setningarstöðu. En það er auðvitað fráleitt að halda því fram að eitthvað sé athugavert við orðalag sem á sér 170 ára sögu í málinu og nærri 160 þúsund dæmi eru um á tímarit.is, og rúm 40 þúsund í Risamálheildinni. Í ljósi þess að orðið hefur komið sér upp fullkominni veikri beygingu, og er notað í dæmigerðri setningarstöðu lýsingarorða, finnst mér einboðið að breyta greiningunni og skilgreina ýmis framvegis sem lýsingarorð sem hafi sterka og veika beygingu eins og önnur orð í þeim flokki – og taka orðalagið hin ýmsu í sátt.