Hvers kyns er Blönduós?
Meginreglan um kyn samsettra orða er sú að seinni eða seinasti hluti þeirra ráði kyninu. Þetta gildir um örnefni eins og önnur orð. Þannig getum við sagt t.d. Reykjavík er mjög falleg, Akureyri er mjög falleg, Þórshöfn er mjög falleg, Skagaströnd er mjög falleg af því að vík, eyri, höfn og strönd eru kvenkynsorð; en Stykkishólmur er mjög fallegur, Sauðárkrókur er mjög fallegur, Hvammstangi er mjög fallegur, Seyðisfjörður er mjög fallegur, vegna þess að hólmur, krókur, tangi og fjörður eru karlkynsorð; og Borgarnes er mjög fallegt, Hveragerði er mjög fallegt vegna þess að nes og gerði eru hvorugkynsorð.
En það er samt ein undantekning, í mínu máli a.m.k. Blönduós er karlkynsorð, vegna þess að ós er karlkyns – en mér finnst samt eiginlega alveg ómögulegt að segja Blönduós er mjög fallegur ef átt er við bæinn (og í því felst ekkert mat á fegurð staðarins). Mér finnst aftur á móti mun eðlilegra að segja Blönduós er mjög falleg – eins og orðið væri í kvenkyni. Langflest dæmi um Blönduós á netinu eru vissulega í karlkyni en þó má finna nokkur dæmi um annað.
Í Degi 1985 segir: „Blönduós er vel í sveit sett, það er mikið um að vera hérna og fólk er félagslynt og það er mikið félagslíf.“ Í Áfangastaðaáætlun Norðurlands sem Ferðamálastofa gaf út 2018 segir: „Blönduós er staðsett við Húnaflóa og er stærsti þéttbýlisstaðurinn í Austur-Húnavatnssýslu.“ Í Bændablaðinu 2021 segir: „Blönduós er staðsett í Austur-Húnavatnssýslu og er því á Norð-Vesturlandi.“ Öll þessi dæmi gætu verið hvort heldur er kvenkyn eða hvorugkyn, en eftirfarandi dæmi af RÚV 2018 getur aðeins verið hvorugkyn: „Blönduós er mjög notalegt og hér er fallegt umhverfi.“
Eðlilegur framburður orðsins er Blöndós, án u – ekki Blönduós. Þetta er eðlilegt vegna þess að sérhljóð kemur á eftir u, en leiðir til þess að tengingin við ána Blöndu verður óskýrari en í öðrum samsetningum þar sem u helst, eins og Blöndudalur, Blöndugil, Blönduvirkjun o.s.frv. Þetta þýðir aftur að það verður óskýrara í huga fólks að orðið er samsett úr Blöndu- og -ós þannig að tengingin við karlkynsorðið ós verður einnig óljósari. Það styður þessa hugmynd að ef verið er að vísa til ósa árinnar en ekki bæjarins verður að segja Blönduós er mjög fallegur – sem sé bera u-ið fram.
Stofngerð seinni hlutans ber líka ekki sérstaklega með sér að um karlkynsorð sé að ræða – við höfum orð eins og rós og dós sem eru kvenkyns og ljós og hrós sem eru hvorugkyns, en ég man í fljótu bragði ekki eftir öðrum karlkynsorðum en ós með þessa stofngerð. Framburðurinn gæti líka ýtt undir þá tilfinningu að seinni hlutinn væri kvenkynsorðið -dós. Samsetning orðsins er auðvitað skýr í huga staðkunnugra en fyrir utanaðkomandi er þetta kannski bara orð sem fólk hugsar ekki út í hvernig er samsett, og sem formsins vegna gæti verið bæði kvenkynsorð og hvorugkynsorð.