Íslenskukunnátta og úkraínskt flóttafólk

Undanfarið hefur orðið nokkur umræða um þær kröfur um íslenskukunnáttu sem eru gerðar í auglýsingu Eflingar um störf á skrifstofu félagsins. Íslenska er ríkismál og aðalsamskiptamálið á Íslandi og vitanlega er æskilegt að allt það fólk sem býr og starfar á landinu hafi gott vald á íslensku. Við vitum samt að það er ekki raunhæft og ég hef kallað eftir því að við hefjum umræðu um stöðu og hlutverk ensku í íslensku málsamfélagi. Þetta snýst nefnilega ekki bara um kröfur til starfsmanna Eflingar, heldur er miklu stærra og varðar það hvernig við bjóðum fólk velkomið inn í íslenskt málsamfélag.

Sem betur fer ríkir mikil samstaða þjóðarinnar um að taka vel á móti fólki sem flýr hið hræðilega stríð í Úkraínu. Sá samhugur sem við sýnum þessu fólki mætti reyndar ná til annars flóttafólks og hælisleitenda en það er annað mál. En það er ekki nóg að sjá fyrir fyrstu og brýnustu þörfum fólksins fyrir húsaskjól, föt og fleira. Við þurfum líka að hugsa fyrir því hvernig fólkið getur orðið hluti af íslensku samfélagi ef það verður hér til frambúðar. Þar er tungumálið meginatriði. Flóttafólkið talar vitanlega enga íslensku og sumt af því ekki ensku heldur. Að mínu mati er fernt sem þarf að hafa í huga.

Í fyrsta lagi er auðvitað grundvallaratriði að fólkinu, sem og öðrum útlendingum sem vilja vinna hér og setjast að, bjóðist íslenskukennsla. Það verður að vera vönduð kennsla sem hæfir kennarar sinna, og það þarf að gefa henni góðan tíma. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk leggi stund á íslenskunám meðfram fullri vinnu, enda er hætt við að athyglisgáfan sé farin að dofna ef fólk sest niður við nám að loknum löngum vinnudegi. Þessi kennsla verður að vera fólkinu að kostnaðarlausu og það þarf að vera á launum meðan á henni stendur. Ríkið og atvinnurekendur verða að bera kostnaðinn af þessu.

Í öðru lagi þarf að hafa í huga að tungumálanám tekur tíma. Jafnvel þótt fólk verji miklum tíma til námsins og sinni því af samviskusemi getur tekið einhver ár fyrir fullorðið fólk að ná sæmilegum tökum á málinu. En vitanlega er fólk ekki í íslenskunámi allan daginn alla daga árum saman, og það er mikilvægt að það komist sem fyrst í vinnu og geti farið að taka þátt í þjóðfélaginu á annan hátt meðan á náminu stendur þótt íslenskukunnáttan sé takmörkuð til að byrja með. Þannig þjálfast það líka í málinu á annan hátt en í beinu íslenskunámi. Við þurfum að finna leiðir til þess að svo geti orðið.

Í þriðja lagi þurfum við að átta okkur á því að fólk sem lærir erlent mál á fullorðinsaldri nær sjaldnast fullkomnum tökum á því. Það er vel þekkt að Íslendingar eru ekki sérlega þolinmóðir við fólk sem er að læra málið og skipta iðulega strax yfir í ensku þegar í ljós kemur að viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku. En það þýðir að fólkið sem er að læra málið fær ekki þjálfun í að tala það og tekur þar af leiðandi engum framförum. Við verðum að viðurkenna að íslenska með erlendum hreim, röngum beygingum og óvenjulegri setningagerð er líka íslenska.

Í fjórða lagi er mikilvægt að skilgreina hve mikil og hvers konar íslenskukunnátta er nauðsynleg við tilteknar aðstæður. Í mörgum störfum getur dugað fólki að geta gert sig skiljanlegt í töluðu máli en kunnátta í að skrifa íslensku verið óþörf. Í ýmsum störfum getur verið mikilvægt að hafa vald á takmörkuðum orðaforða sem tengist starfinu en breið kunnátta í málinu verið óþörf. Í sumum tilvikum skiptir íslenskukunnátta engu máli fyrir hæfni fólks til að sinna starfi sínu vel. Það er mikilvægt að kröfur um íslenskukunnáttu í starfsauglýsingum séu málefnalegar og sniðnar að eðli starfsins.

Ég endurtek það sem ég hef áður skrifað: Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann ensku? Hvernig auðveldum við fólki með annað móðurmál að taka fullan þátt í samfélaginu? Hvernig eflum við íslenskuna þannig að hún verði nothæf á öllum sviðum þjóðlífsins? Hvernig gerum við íslenskuna áhugaverðari og eftirsóknarverðara að nota hana? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?

Þetta eru nokkur dæmi um það sem þarf að ræða á næstunni – og byrja strax.