Hvað er auðmýkjandi lífsreynsla?
Stundum sér maður að farið er að leggja nýja merkingu í lýsingarorðið auðmýkjandi. Elsta dæmi sem ég hef rekist á um þetta er í DV 2014: „Meðgangan og barneignarferlið almennt hefur verið auðmýkjandi, yndislegt og lærdómsríkt.“ Annað dæmi er úr Víkurfréttum 2021: „Það er bara svo magnað og á sama tíma afar auðmýkjandi að upplifa kraftinn frá móður Jörð.“ Í Morgunblaðinu 2022 segir: „það er sérstaklega auðmýkjandi að vera falið að vera fyrsti forseti deildarinnar.“ Og nýlega sá ég á Facebook: „Það er auðmýkjandi að byrja upp á nýtt í nýju landi.“
Lýsingarorðið auðmýkjandi er komið af sögninni auðmýkja og er skýrt 'sem auðmýkir' í Íslenskri nútímamálsorðabók, en sögnin er aftur skýrð 'gera lítið úr (e-m), vanvirða (e-n)'. Hún er komin af lýsingarorðinu auðmjúkur sem er skýrt 'bljúgur og undirgefinn' í Íslenskri nútímamálsorðabók og af því er líka komið nafnorðið auðmýkt sem er skýrt 'það að vera auðmjúkur'. Mér finnst reyndar 'bljúgur og undirgefinn' ekki ná merkingunni alveg – þetta merkir einnig 'bera lotningu fyrir' eða eitthvað slíkt. En hvað sem því líður er ljóst að auðmjúkur er fremur jákvætt orð, auðmýkjandi neikvætt.
Þetta virðist hins vegar vera að breytast eins og dæmin hér að framan sýna. Í Morgunblaðinu 2021 segir: „Báðir hópar eru að gera eitthvað sem þeir kunna ekki og það er mjög auðmýkjandi, í jákvæðri merkingu.“ Höfundur þessa texta gerir sér greinilega ljóst að þarna er um óhefðbundna notkun orðsins auðmýkjandi að ræða, og í dæmunum hér að framan er auðmýkjandi notað í þeirri jákvæðu merkingu sem auðmjúkur hefur. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt – eins og áður segir er auðmýkjandi komið af auðmjúkur, gegnum milliliðinn auðmýkja, og því virðist liggja beint við að merking orðanna sé nokkurn veginn sú sama.
En þannig er það ekki samkvæmt málhefðinni. Í fljótu bragði virðist það e.t.v. undarlegt að svona náskyld orð hafi svo ólíka merkingu en ef við skoðum orðin og myndun þeirra verður það skiljanlegt. Að mýkja eitthvað merkir 'gera mjúkt' og auðmýkja því 'gera auðmjúkt'. Þótt við séum sátt við að vera auðmjúk við ýmsar aðstæður táknar það ekki að við viljum láta gera okkur auðmjúk – það er niðurlægjandi. Í dæmunum hér að framan er samt ekki hægt að setja auðmjúkur í stað auðmýkjandi þótt það væri merkingarlega eðlilegt – það þarf að umorða setningarnar, t.d. Það fyllir mann auðmýkt að byrja upp á nýtt í nýju landi.
Þessi nauðsyn umorðunar ýtir e.t.v. undir hina nýju notkun auðmýkjandi – fólki finnst vanta þarna eitthvert lýsingarorð í jákvæðu merkingunni. Þessi breyting á notkun orðsins er því skiljanleg frá ýmsum sjónarmiðum. En breytingin virðist ekki komin mjög langt, miðað við hversu fá dæmi ég hef fundið um hana, og þess vegna ætti að vera hægt að snúa henni við. Það er æskilegt að halda sig við málhefð og halda áfram að gera skýran greinarmun á auðmjúkur og auðmýkt annars vegar og auðmýkja og auðmýkjandi hins vegar. Tölum um auðmýkjandi lífsreynslu ef við höfum verið niðurlægð en ekki ef við höfum verið auðmjúk gagnvart einhverju.