Íðorð og almennt mál

Í Facebook-hópnum Málspjall spannst nýlega mikil umræða út frá fyrirspurn um orð yfir gerendur eineltis. Ég áttaði mig á því eftir á að fólk talaði þarna dálítið í kross. Það var stungið upp á að nota ýmis orð sem eru vel þekkt úr almennu máli – einkum hrekkjusvín en líka tuddi, ruddi, hrellir, ótukt og ýmis fleiri. Ég brást margsinnis við tillögum um þessi orð á þann veg að þau væru ekki nothæf í þeim tilgangi sem um var að ræða, og ég stend við það. En mikilvægt er að það komi skýrt fram að þetta eru allt saman ágæt orð sem sjálfsagt er að nota í daglegu tali þegar verið er að ræða um tiltekin mál. Þau eru bara ekki hentug sem íðorð, þ.e. fagorð í fræðilegri umræðu.

Það eru ekki nema um 40 ár síðan farið var að nota nafnorðið einelti sem íðorð, þótt það væri þekkt í sambandinu leggja í einelti. En það sem nú er flokkað undir einelti var kallað ýmsum nöfnum – stríðni, hrekkir, áreitni, ofbeldi o.fl. Þessi orð eru vitanlega enn góð og gild en eins og útbreiðsla orðsins einelti sýnir er hentugt að hafa eitt orð með afmarkaða skilgreinda merkingu til að ná yfir fjölbreytta hegðun – einelti er skilgreint í Lögfræðiorðasafni sem: „Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta.“

Orðin stríðni og hrekkur eru ekki í neinu íðorðasafni, og skilgreining orðanna áreitni og ofbeldi í íðorðasöfnum er langt frá því að ná yfir öll tilbrigði eineltis. Áðurnefnd orð sem stungið var upp á að nota um gerendur, tuddi, ruddi, hrellir, ótukt o.fl., eru ekki heldur í íðorðasöfnum enda er merking þeirra ýmist of óskilgreind eða of sértæk til að þau geti hentað sem íðorð. Það er nefnilega sá meginmunur á íðorðum og orðum í almennu máli að íðorðin verða að hafa afmarkaða og vel skilgreinda merkingu sem almenn sátt er um (þótt vissulega geti fólk stundum greint á um merkingu einstakra íðorða). Orð í almennu máli hafa hins vegar oft tiltölulega fljótandi merkingu og fólk getur lagt mismunandi merkingu í þau.

Þetta á ekki síst við um orð um óhlutstæð fyrirbæri eins og hegðun og tilfinningar, þótt jafnvel geti verið ótrúlega erfitt að skilgreina nákvæmlega merkingu orða um áþreifanlega hluti eins og vel kom fram í þekktri grein Höskuldar Þráinssonar um merkingu orðsins bolli. Stundum er reynt að taka orð úr almennu máli og gera þau að íðorðum með því að hnika skilgreiningu þeirra til. Þekkt dæmi er öreigi sem merkir 'eignalaus maður' en kommúnistar gáfu merkinguna 'sá sem á ekki framleiðslutæki'. Þetta er þó varasamt og tekst ekki alltaf vel því að hætta er á að orðin haldi gömlu merkingunni áfram í huga málnotenda.

Orðið einelti var vissulega til í almennu máli áður, en eingöngu í sambandinu leggja í einelti. Þess vegna þurfti ekki að hrófla neitt við merkingu þess þegar það var gert að íðorði. Það væri gagnlegt að hafa orð um gerendur eineltis sem svaraði nákvæmlega til orðsins. Það gerir orð eins og hrekkjusvín ekki, og það er tæpast orð sem unnt er að nota í fræðilegri umræðu. Vegna þess að mér virtist fyrirspurnin varða slíka notkun (sem kann að hafa verið misskilningur) stakk ég upp á orðinu eineltir en það er mér vitanlega að meinalausu ef fólki finnst það ekki heppilegt. Aðalatriðið er að hafa í huga að það er munur á orðum í almennu máli og íðorðum, en hvort tveggja á vitanlega fullan rétt á sér – þar sem við á.