2:1 fyrir Ísland eða Íslandi?

Forsetningin fyrir tekur ýmist með sér þolfall eða þágufall í dæmum eins og staðan er 2:1 fyrir Ísland/Íslandi. Þetta samband með þolfalli var a.m.k. komið til fyrir 1940, og þolfallið hefur verið yfirgnæfandi til skamms tíma. Elstu dæmi um þágufallið sem ég hef fundið við snögga leit eru frá 1981 en notkun þess virðist hafa aukist mjög á allra síðustu árum. Samkvæmt lauslegri athugun í Risamálheildinni gæti hlutfall þolfalls og þágufalls í textum frá síðustu 20 árum verið 3:1, en mjög misjafnt eftir miðlum. Hlutfall þágufallsins er mun hærra í textum sem ætla má að yngra fólk skrifi og því trúlegt að það eigi enn eftir að hækka á næstu árum.

Svo má spyrja hvort hægt sé að finna einhverja ástæðu fyrir þessum tilbrigðum. Forsetningin fyrir stjórnar frá fornu fari ýmist þolfalli eða þágufalli og ekki er alltaf auðvelt að finna merkingarlegar ástæður fyrir fallstjórninni hverju sinni. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru tilgreind 12 merkingartilbrigði forsetningarinnar, sjö sem taka með sér þolfall og fimm sem taka með sér þágufall. Ekki er alveg ljóst undir hvert þeirra sambandið sem hér um ræðir gæti fallið – þolfallið e.t.v. helst undir það áttunda, 'með tilliti til, gagnvart'. Þágufallið á sér aftur á móti hliðstæðu í dæmum eins og ganga/fara vel/illa fyrir einhverjum, blása byrlega fyrir einhverjum, hlaupa á snærið fyrir einhverjum, syrta í álinn fyrir einhverjum.

Málfarsbankinn segir: „Það er talið betra mál að segja 2 – 0 fyrir mig en „2 – 0 fyrir mér“.“ Þetta er auðvitað smekksatriði og getur ekki byggst á öðru en því að eldri og ríkari hefð er fyrir þolfallinu, en bæði þolfallið og þágufallið ríma ágætlega við merkingartilbrigði forsetningarinnar fyrir. Sjálfum finnst mér hvort tveggja eðlilegt þótt ég myndi frekar nota þolfallið og segja 2:1 fyrir Ísland. Það er hins vegar ljóst að þágufallið er í sókn og orðið mjög útbreitt þannig að það er komin hefð á það líka. Vegna þess að það á sér hliðstæður í annarri notkun forsetningarinnar fyrir finnst mér engin ástæða til annars en viðurkenna það sem rétt og vandað mál.