Íslenska er alls konar

Gleðilega þjóðhátíð! Það var gaman að hlusta á ávarp fjallkonunnar á Austurvelli í morgun. Ávarpið var sérlega fallegt og áhrifamikið ljóð eftir Brynju Hjálmsdóttur og fjallkonan var Sylwia Zajkowska, pólsk að uppruna. Hún flutti ljóðið mjög vel – vissulega með sterkum erlendum hreim og einn Facebook-vinur minn (sem ekki er lengur á vinalistanum mínum) skrifaði „Fyrir okkur sem eldri eru hefði mátt þýða ávarp fjallkonunnar á íslensku.“ Þetta er auðvitað ekki annað en rakinn dónaskapur og rasismi sem ekki á að líðast.

„Þeir skilja sem vilja“ sagði þýski veðurfræðingurinn þegar kvartað var undan lestri hans á veðurfregnum fyrir nokkrum árum. Það er ótrúlega mikilvægt að við venjum okkur á að hlusta á íslensku með erlendum hreim og komum til móts við fólk sem vill tala íslensku þótt það hafi hana ekki fullkomlega á valdi sínu. Kvartanir um erlendan hreim gera ekki annað en fæla fólk frá því að læra íslensku og stuðla að því að hér komi upp hópar fólks sem ekki kann málið og einangrast í samfélaginu. Viljum við það?