Glöggt er gests augað
Þótt ég hafi fengist við lítið annað en að kenna og rannsaka íslenskt mál og málfræði allt frá 1980, og þar af haft af því atvinnu í 36 ár, eru hér alltaf að koma spurningar um eitthvað í málinu sem ég hef aldrei leitt hugann að. Stundum tekst mér að svara þessum spurningum en stundum stend ég alveg á gati. Sem dæmi um atriði af þessu tagi sem nýlega hefur verið spurt um má nefna hvorugkyn lýsingarorðsins nógur – af hverju er það oftast bara nóg í stað þess að bæta við sig -t eins og hvorugkyn lýsingarorða gerir venjulega? Og af hverju segjum við hundrað krónum dýrari en ekki hundraði krónum dýrari?
Ég held að þau sem eiga íslensku að móðurmáli séu yfirleitt ekki í vafa um að eðlilegt er að segja það er nóg bensín á bílnum en ekki *það er nógt bensín á bílnum, og þetta er þjú hundruð árum eldra en ekki *þetta er þremur hundruðum árum eldra. Stjörnumerktu setningarnar eru þó þær sem við væri að búast út frá almennum reglum málsins – lýsingarorð fá venjulega -t-endingu í hvorugkyni og beygjanleg töluorð (eins og hundrað) sambeygjast venjulega nafnorðinu sem þau standa með, sbr. fjórum krónum dýrari. Þetta eru því undantekningar frá almennum reglum – undantekningar sem við verðum að læra sérstaklega.
Við lærum þetta áreynslulaust og ómeðvitað, að því tilskildu að nógu mikil íslenska sé í málumhverfi okkar til að við heyrum dæmi um þessa notkun nógu oft til að átta okkur á henni. En vegna þess að við lærum þetta ómeðvitað og beitum kunnáttunni sjálfkrafa áttum við okkur ekki á því að neitt afbrigðilegt eða óvænt sé við þessar setningar. Öðru máli gegnir um fólk sem er að læra íslensku sem annað mál. Það lærir málið, að minnsta kosti framan af, að miklu leyti af bókum og með beinni kennslu. Þess vegna rekst það á atriði af þessu tagi og furðar sig á þeim – og spyr fólk sem á íslensku að móðurmáli og kemur því af fjöllum.
Spurningar um bæði atriðin sem ég nefndi hér að framan komu einmitt frá erlendri konu sem er að læra íslensku og hafði rekist á þetta og skildi ekki af hverju það væri svona. Þetta er gott dæmi um það hvernig útlendingar geta veitt okkur nýja sýn á íslenskuna – vakið athygli okkar á fjölbreytni hennar og sérviskum, sem eru einmitt eitt af því sem gerir hana svona skemmtilega og áhugaverða.