Mikilvægi auðugs málumhverfis
Á fyrstu sex æviárunum eða svo tileinkum við okkur flestar helstu reglur móðurmáls okkar. Máltökunni er þó síður en svo lokið – við höldum áfram að læra undantekningar frá meginreglum, ýmsar reglur sem sjaldan reynir á, og alls konar atriði sem engum reglum verður yfir komið. Síðast en ekki síst aukum við orðaforða okkar smátt og smátt – ekki bara til loka máltökuskeiðsins um kynþroskaaldur, heldur alla ævi. Þessi tileinkun fer að mestu fram ómeðvitað og áreynslulaust – við lærum ekki reglur málsins og undantekningar frá þeim af bókum, heldur áttum okkur á þeim sjálf út frá því máli sem við heyrum í kringum okkur. Stundum er að vísu reynt að berja inn í okkur reglur sem ganga þvert á þær ályktanir sem við höfum dregið af málinu í umhverfi okkar, en árangurinn af því er misjafn eins og alkunna er.
En til að við getum dregið öruggar ályktanir af málinu í umhverfi okkar þarf að vera nóg af því. Þetta skiptir helst máli þegar um er að ræða reglur með takmarkað gildissvið og reglur um áhrif orða á önnur – sjaldgæf beygingarmynstur, sjaldgæfar eða flóknar setningagerðir o.fl. Sem dæmi má taka tvö atriði sem eru nokkuð á reiki í málinu – afturbeygingu og viðtengingarhátt. Þessi atriði eiga það sameiginlegt að þau varða tengsl milli orða innan setningar, þannig að orð á einum stað í setningu ræður því hvaða orð eða hvaða beygingarmynd er notuð á öðrum stað í setningunni, jafnvel töluvert langt frá. Þetta er fjarri því að vera einfalt, atriðin sem hafa áhrif á val orðs eða beygingarmyndar eru mörg og hugsanlegt samspil þeirra margvíslegt.
Til að átta sig á þessu og koma sér upp traustum reglum þurfa börnin því að heyra mikið af dæmum þar sem allir möguleikar koma fram. Það gerist ekki nema mikið sé talað við börnin. Þá duga ekki stutt og einföld samtöl um fábreytt efni með stuttum setningum og takmörkuðum orðaforða, þótt slík samtöl séu vitanlega sjálfsögð og mikilvæg. En það þarf líka lengri og innhaldsríkari samtöl um fjölbreytt efni – samtöl til að fræða börnin um eitt og annað, segja þeim sögur o.fl. Til viðbótar þarf auðvitað að lesa fyrir börnin, og hvetja þau til að lesa sjálf þegar þau eru orðin læs. Í rituðu máli, jafnvel textum sem eru ætlaðir börnum, koma fyrir orð og setningagerðir sem eru sjaldgæf í talmáli en nauðsynleg fyrir börnin til að tileinka sér málkerfið og málhefðina.
Við þurfum ekkert að vera hissa þótt notkun viðtengingarháttar og afturbeygingar, og ýmissa fleiri flókinna eða sjaldgæfra atriða, sé eitthvað á reiki hjá börnum og unglingum, og jafnvel fullorðnu fólki. Það er eðlileg og óhjákvæmileg afleiðing af breyttu þjóðfélagi, minni bóklestri og minna eða breyttu máláreiti. En viðbrögðin eiga ekki og mega ekki vera þau að hneykslast og tala unglingana og mál þeirra niður. Það hefur þveröfug áhrif. Í staðinn þurfum við að leita leiða til að örva og styrkja málumhverfi þeirra, halda málinu meira að þeim – á jákvæðan hátt, með því að nota það og fá þau til að nota það, en ekki með leiðréttingum og umvöndunum.