Stjórnarráðið auglýsir starf án kröfu um íslenskukunnáttu

Í nýrri starfsauglýsingu frá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu er þess krafist að umsækjendur hafi „Gott vald á íslensku og/eða ensku“ (feitletrun mín) og ráðherra segir á Facebook: „Hér er í fyrsta sinn auglýst starf í Stjórnarráðinu þar sem íslenska er ekki krafa.“ Mér finnst fullkomin spurning hvort þetta samræmist lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls. Þar segir í áttundu grein: „Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.“ Samkvæmt auglýsingu felst m.a. í starfinu:

  • Framsetning, skilgreining og mat á mælikvörðum
  • Árangursmat á þeim verkefnum sem ráðuneytið stýrir
  • Samvinna með hópum um forgangsverkefni ráðuneytis
  • Undirbúningur fjármálaáætlunar og fjárlaga
  • Miðlun upplýsinga hvoru tveggja innan og utan ráðuneytis

Ég get ómögulega séð að hægt sé að sinna þessum verkefnum án góðrar kunnáttu í íslensku. Skilgreining og mat á mælikvörðum felur í sér ritun texta sem hlyti að verða á ensku. Það væri ekki hægt að meta árangur verkefna ráðuneytisins nema skýrslur um þau væru á ensku. Öll samvinna við hópa um forgangsverkefni yrði að fara fram á ensku. Skjöl í tengslum við undirbúning fjárlaga yrðu að vera á ensku. Öll upplýsingamiðlun innan og utan ráðuneytis yrði á ensku. Óhjákvæmilega leiðir skortur á íslenskukunnáttu í þessu starfi til þess að stjórnsýsla ráðuneytisins verður að verulegu leyti á ensku sem er skýrt brot á tilvitnaðri lagagrein.

Ég legg áherslu á, eins og ég hef oft gert, að almennt séð á ekki að nota skort á íslenskukunnáttu til að mismuna fólki við ráðningu í störf eða á öðrum sviðum. En það á aðeins við um ómálefnalega mismunun, þegar fyrir liggur að fólk geti sinnt starfinu fullkomlega án íslenskukunnáttu – þegar beiting tungumáls er óverulegur þáttur í starfinu, eða þörf á samskiptum við Íslendinga takmörkuð. Í sumum tilvikum kann hins vegar að vera málefnalegt og eðlilegt, og jafnvel nauðsynlegt, að gera kröfu um íslenskukunnáttu vegna eðlis starfsins. Ég get ekki betur séð en svo sé í þessu tilviki – starfið grundvallast á mállegum samskiptum í ræðu og riti.

Nú kann vel að vera að mörgum þyki rétt að slaka á þessum kröfum og telji rétt að ráða hæfasta umsækjandann, án tillits til tungumálakunnáttu. Ég sé reyndar ekki að umsækjandi sem ekki hefur vald á íslensku geti nokkurn tíma orðið hæfastur í þetta starf ef marka má starfslýsinguna. En ef við lítum fram hjá því er auðvitað ljóst að þetta er víða gert nú þegar, t.d. í háskólunum. Það má líka alveg færa rök að því að slík tilslökun sé nauðsynleg ef við ætlum að vera samkeppnishæf í tæknivæddu alþjóðlegu umhverfi – þá getum við ekki látið óraunhæfar kröfur um kunnáttu í örtungumáli koma í veg fyrir að við ráðum hæfasta fólkið.

Um þetta má vissulega deila, en aðalatriðið er að þetta þarf að ræða. Eins og ég hef áður sagt er mjög brýnt að við hefjum alvöru umræður um það hvaða stöðu við ætlum enskunni í íslensku málsamfélagi. Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann ensku? Hvernig auðveldum við fólki með annað móðurmál að taka fullan þátt í samfélaginu? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?

Það hefur ekki borið á miklum umræðum um þetta, og verið farið með enskunotkun á Íslandi svolítið eins og feimnismál. Við tölum íslensku á Íslandi, segjum við. En við vitum samt að enskan er komin til að vera og ekkert bendir til annars en mikilvægi hennar í málsamfélaginu haldi áfram að aukast. Við megum ekki halda áfram að stinga höfðinu í sandinn – við þurfum að ræða þetta. A.m.k. þurfum við að gera upp við okkur hvort það sé í lagi að starfsauglýsingar stjórnarráðsins brjóti í bága við lög.