Posted on Færðu inn athugasemd

Illa ættuð orð

Það er alþekkt í íslenskri málfarsumræðu að orð séu látin gjalda uppruna síns. Orð sem falla vel að málinu eru iðulega úthrópuð á þeim forsendum að þau séu komin úr öðru tungumáli. Áður var það aðallega danska, en nú finnur fólk hliðstæður í ensku. Stundum er orðum reyndar gert rangt til að þessu leyti. Fyrir mörgum áratugum heyrði ég söguna um menntaskólakennarann sem hamaðist gegn orðinu handklæði og vildi ekki sjá það í ritgerðum nemenda, enda væri það augljóslega hrá danska – håndklæde. Það slumaði þó í honum þegar honum var bent á að orðið kæmi fyrir í Njálu – „Flosi hugði að handklæðinu og var það raufar einar og numið til annars endans“.

Íslenska og danska eru auðvitað náskyld mál, komin af sömu rót, og engin furða að fjöldi íslenskra orða eigi sér hliðstæðu í dönsku. Íslenska og enska eru líka skyld mál þótt fjarlægðin þar á milli sé talsvert meiri, og íslensk orð sem líkjast enskum orðum þurfa því ekki að vera komin úr ensku heldur geta þau átt sér óslitna sögu í báðum málunum, allt frá sameiginlegri formóður þeirra. Þannig er um jafnalgengt orð og salt sem er skrifað eins í báðum málum þótt framburður sé ekki alveg sá sami. Annað algengt orð sem er eins í báðum málum er egg en það er upphaflega tökuorð í ensku úr norrænu. Orð geta nefnilega líka farið í þá átt þótt það sé vissulega sjaldgæfara, en annað þekkt dæmi er geyser.

En svo eru auðvitað fjölmörg orð og orðasambönd komin úr ensku eða gerð að enskri fyrirmynd. Eitt þessara orða er snjóstormur. Það er lítill vafi á því að fyrirmyndin er enska orðið snowstorm – elstu dæmi um orðið eru úr íslensku blöðunum í Vesturheimi og í fyrsta dæminu er það m.a.s. snjóstorm, án endingar, í nefnifalli, en lagaði sig mjög fljótt að beygingakerfinu. Því er oft haldið fram að þetta orð sé „hrá enska“ en það er auðvitað fráleitt. Þetta er rétt myndað orð úr tveimur íslenskum orðstofnum, notað í íslensku máli, og getur þar af leiðandi ekki verið annað en íslenska. Svo getur fólk haldið því fram að orðið sé rangt notað og betra sé að nota önnur orð, en það er bara annað mál. Orðið er íslenskt eftir sem áður.

Annað dæmi er orðið byrðing sem farið er að nota um það sem heitir boarding á ensku – þegar farþegar ganga um borð í flugvél. Auðvitað er enginn vafi á því að þetta er myndað með hliðsjón af boarding. En er eitthvað að því? Það er talað um að ganga um borð, -ing er eðlilegt verknaðarviðskeyti í íslensku, og það veldur i-hljóðvarpi, borð- > byrð-, í stofninum sem það tengist. Orðhlutarnir eru íslenskir og orðmyndunin íslensk. Samt hef ég séð talað um þetta sem „hráa þýðingu“ eða „eftiröpun“ úr ensku. Í þessu tilviki er þó ekki um það að ræða að verið sé að ýta neinu íslensku orði til hliðar vegna þess að orð um þessa athöfn var ekki til áður svo að ég viti.

Við berjum okkur iðulega á brjóst yfir því „að orð er á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu“. Það er samt ofmælt – okkur vantar stundum orð og þess vegna eigum við að taka vel á móti nýjum orðum sem falla að málinu en ekki útskúfa þeim vegna uppruna síns eða vegna þess að þau eigi sér erlendar fyrirmyndir. En jafnvel þótt fyrir séu í málinu orð sömu eða svipaðrar merkingar og nýju orðin getur erlend hliðstæða aldrei verið gild ástæða fyrir höfnun. Orð úr íslensku hráefni, mynduð samkvæmt íslenskum orðmyndunarreglum, eru og verða ekkert annað en íslenska.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tökum nýjum orðum fagnandi

Iðulega heyrum við eða sjáum íslensk orð sem við könnumst ekki við. Þessi orð geta verið af ýmsum toga. Stundum er um að ræða orð sem hafa verið lengi í málinu en eru þó sjaldgæf, stundum eru orðin staðbundin eða einkum notuð í ákveðnum aldurs- eða þjóðfélagshópi, og stundum eru þau ný í málinu. Ástæður fyrir nýmyndun orða geta líka verið ýmsar. Stundum vantar hreinlega orð yfir tiltekin fyrirbæri eða athafnir, stundum þekkir fólk ekki þau orð sem eru til og býr þess vegna til ný, og stundum þykir fólki þau orð sem eru til vera óheppileg eða óviðeigandi af einhverjum ástæðum og nauðsynlegt að koma með orð í þeirra stað.

En orðum sem fólk þekkir ekki er oft illa tekið – sögð óþörf, ljót, klúðursleg, jafnvel orðskrípi. Ef orð sömu merkingar eru fyrir í málinu amast fólk oft við orðum sem það telur ný vegna ótta um að þau útrými þeim gömlu. Það er þó yfirleitt ástæðulaus ótti. Það þarf mikið til að útrýma úr málinu orði sem á sér langa hefð og fólk þekkir. Það er t.d. ekkert útlit fyrir að snjóstormur sé að útrýma orðum eins og bylur, hríð o.s.frv., eins og oft er haldið fram, eða vera á tánum/tásunum/táslunum sé að útrýma orðinu berfættur.

Fólk talar oft um að tiltekin orð séu óþörf af því að orð sömu merkingar séu fyrir í málinu. En þótt svo kunni að vera er ekki þar með sagt að alltaf sé hægt að skipta gamla orðinu út fyrir það nýja. Þótt orðin hafi strangt tekið sömu merkingu geta þau tilheyrt mismunandi málsniði – annað t.d. verið formlegra en hitt. Gott dæmi eru orðin bíll og bifreið. Þau merkja vissulega það sama, en því fer fjarri að alltaf sé hægt að setja annað í stað hins. Svipað mætti segja um hestur og fákur, vegabréf og passi, og ótal önnur dæmi mætti taka.

En í þessari umræðu kemur fram undarlegur tvískinnungur, því að þótt iðulega sé amast við orðum sem fólk kannast ekki við og þau sögð óþörf er orðauðgi íslenskunnar líka vegsömuð og það talið henni til gildis að hafa t.d. fjölmörg orð yfir snjó. Mörg þessara orða merkja nokkurn veginn það sama, en þau gefa kost á ýmsum blæbrigðum sem okkur þykir æskileg. Það tekur vissulega alltaf tíma að venjast nýjum orðum en það er yfirleitt engin ástæða til að amast við þeim og reyna að hrekja þau úr málinu. Oftast auðga þau málið ef þau komast í notkun.