Tökum nýjum orðum fagnandi

Iðulega heyrum við eða sjáum íslensk orð sem við könnumst ekki við. Þessi orð geta verið af ýmsum toga. Stundum er um að ræða orð sem hafa verið lengi í málinu en eru þó sjaldgæf, stundum eru orðin staðbundin eða einkum notuð í ákveðnum aldurs- eða þjóðfélagshópi, og stundum eru þau ný í málinu. Ástæður fyrir nýmyndun orða geta líka verið ýmsar. Stundum vantar hreinlega orð yfir tiltekin fyrirbæri eða athafnir, stundum þekkir fólk ekki þau orð sem eru til og býr þess vegna til ný, og stundum þykir fólki þau orð sem eru til vera óheppileg eða óviðeigandi af einhverjum ástæðum og nauðsynlegt að koma með orð í þeirra stað.

En orðum sem fólk þekkir ekki er oft illa tekið – sögð óþörf, ljót, klúðursleg, jafnvel orðskrípi. Ef orð sömu merkingar eru fyrir í málinu amast fólk oft við orðum sem það telur ný vegna ótta um að þau útrými þeim gömlu. Það er þó yfirleitt ástæðulaus ótti. Það þarf mikið til að útrýma úr málinu orði sem á sér langa hefð og fólk þekkir. Það er t.d. ekkert útlit fyrir að snjóstormur sé að útrýma orðum eins og bylur, hríð o.s.frv., eins og oft er haldið fram, eða vera á tánum/tásunum/táslunum sé að útrýma orðinu berfættur.

Fólk talar oft um að tiltekin orð séu óþörf af því að orð sömu merkingar séu fyrir í málinu. En þótt svo kunni að vera er ekki þar með sagt að alltaf sé hægt að skipta gamla orðinu út fyrir það nýja. Þótt orðin hafi strangt tekið sömu merkingu geta þau tilheyrt mismunandi málsniði – annað t.d. verið formlegra en hitt. Gott dæmi eru orðin bíll og bifreið. Þau merkja vissulega það sama, en því fer fjarri að alltaf sé hægt að setja annað í stað hins. Svipað mætti segja um hestur og fákur, vegabréf og passi, og ótal önnur dæmi mætti taka.

En í þessari umræðu kemur fram undarlegur tvískinnungur, því að þótt iðulega sé amast við orðum sem fólk kannast ekki við og þau sögð óþörf er orðauðgi íslenskunnar líka vegsömuð og það talið henni til gildis að hafa t.d. fjölmörg orð yfir snjó. Mörg þessara orða merkja nokkurn veginn það sama, en þau gefa kost á ýmsum blæbrigðum sem okkur þykir æskileg. Það tekur vissulega alltaf tíma að venjast nýjum orðum en það er yfirleitt engin ástæða til að amast við þeim og reyna að hrekja þau úr málinu. Oftast auðga þau málið ef þau komast í notkun.