Stjórnsýslufúsk

Lina Hallberg, sem nýlega lauk BA-prófi í íslensku sem öðru máli og skrifaði mjög fróðlega BA-ritgerð um íslensku sem annað mál, hefur verið að leita upplýsinga um áform stjórnvalda í kennslu íslensku sem annars máls. Hún sendi fyrirspurn til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og vitnaði í framhaldsnámskrá frá 2010 sem lítið virðist hafa verið gert með og spurði m.a.: „Getið þið bent mér á skóla sem býður upp á námskeið samkvæmt framhaldsnámskránni eða sagt mér hvort það sé á dagskrá hjá ykkur að bæta stöðu kennslu ÍSAT nemenda?“

Svarið sem hún fékk var stutt og laggott, afrit af pósti ráðuneytisins til mennta- og barnamálaráðuneytisins: „Félagsmálaráðuneytið framsendir hér með meðfylgjandi erindi til afgreiðslu hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu.“ Samt hafði Lina fengið þær upplýsingar frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, bæði í símtali og tölvupósti, að kennsla íslensku sem annars máls heyrði undir það ráðuneyti, að undanskilinni kennslu íslensku sem annars máls í framhaldsskólum sem heyrir undir mennta- og barnamálaráðuneytið. En það á ekki við í þessu tilviki.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið virðist því þvo hendur sínar af ábyrgð á kennslu íslensku sem annars máls, þrátt fyrir að hafa staðfest að það verkefni sé á könnu ráðuneytisins. Þetta er auðvitað forkastanlegt, en því miður dæmigert fyrir íslenska stjórnsýslu. Það er alltof algengt að hver vísi á annan og enginn telji sig eiga að svara fyrirspurnum, hvað þá leysa mál. En þetta er sérstaklega dapurlegt í ljósi margítrekaðra yfirlýsinga stjórnvalda um gildi íslenskunnar og mikilvægi þess að auðvelda fólki sem hingað kemur að læra málið.

Niðurstaða Linu Hallberg í áðurnefndri BA-ritgerð var: „Það má með sanni segja að íslenska ríkið hafi hingað til því miður ekki staðið sig vel á þessu sviði og sýni mikið áhugaleysi í innflytjendamálum.“ Þetta dæmi sýnir vandann í hnotskurn – enginn telur sig bera ábyrgð. Við hljótum að geta gert betur.