Smætta
Sögnin smætta kemur fyrir í fornu máli, reyndar aðeins í Konungsskuggsjá sem er norsk, og aðeins í miðmyndinni smættast. Í Íslenskri orðsifjabók er gert ráð fyrir því að hún sé mynduð (með i-hljóðvarpi) af hvorugkyni lýsingarorðsins smár, þ.e. smátt. Sögnin virðist lengstum hafa verið mjög sjaldgæf – engin gömul dæmi eru um hana í Ritmálssafni Árnastofnunar og hún kemur ekki fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Elsta dæmi um hana á tímarit.is er í grein Sigurðar Nordals um Völuspá í Iðunni 1924 þar sem segir: „Það myndi gera kvæðið ljósara og nálægara, án þess að smætta það.“ Trúlegt er að Sigurður hafi þekkt þekkt fornmálsdæmin.
En næst kemur sögnin ekki fyrir fyrr en hálfri öld síðar, í Stúdentablaðinu 1973 þar sem segir: „Vissulega hefur ávallt verið stéttarsvipur yfir ráðandi gildum, en jafnframt hefur ávallt verið viss kjarni í þessum gildum, sem ekki er hægt að smætta niður í stéttarhagsmuni.“ Það er vel hugsanlegt, þótt ómögulegt sé að fullyrða nokkuð um það, að þarna sé í raun og veru um nýmyndun að ræða, frekar en höfundur textans sé að nota orð sem hann þekkti. Til þess bendir líka sú nýjung að sögnin er þarna notuð með fylgilið, smætta niður í, eins og oftast hefur verið gert á undanförnum áratugum.
Í Morgunblaðinu 1986 segir: „Hún gæti þó tæplega fullyrt að hægt sé að „smætta“ það niður í frumeiningar sínar, hún lítur á það í heild sinni.“ Þarna er smætta höfð innan gæsalappa sem sýnir að hún hefur þótt framandi á þessum tíma. En notkun orðsins fór að vaxa seint á níunda áratugnum og sú þróun hélt áfram á þeim tíunda, og upp úr aldamótum varð sprenging í notkuninni svo að nánast er hægt að kalla smætta tískuorð. Þannig eru 12 dæmi um orðið á tímarit.is frá 1980-1989, en 217 frá 2000-2009. Ljóst er að orðið er hálfgildings íðorð í hug- og félagsvísindum – stór hluti dæma um það er úr fræðilegum tímaritum í bókmenntafræði og heimspeki.
Merking orðsins í fornu máli er 'minnka, draga úr' en í áðurnefndu dæmi úr grein Sigurðar Nordals er merkingin eiginlega 'gera léttvægara, draga úr gildi'. Stundum getur sögnin merkt 'einfalda', og það gæti í og með átt við í áðurnefndum dæmum úr Stúdentablaðinu 1973 og Morgunblaðinu 1986. En eftir að notkun orðsins fór að aukast hefur merkingin 'gera lítið úr, niðurlægja' orðið meira áberandi og er nú líklega aðalmerkingin. Málsgrein í Veru 1993 sýnir vel dæmigerða notkun orðsins á seinustu árum: „Konur eru smættaðar niður í kynfæri sín og völd þeirra færð úr samfélaginu og inn í svefnherbergið.“
Þetta endurspeglast í skýringum orðabóka. Í Íslenskri orðabók er orðið skýrt 'gera smærra en skyldi, minnka, draga úr' en í Íslenskri nútímamálsorðabók er eingöngu gefin merkingin 'gera lítið úr einhverju (einhverjum)'. Það væri hins vegar ástæða til að nefna það í orðabókunum að þótt sögnin hafi áður verið notuð án fylgiliðar, eins og í áðurnefndu dæmi frá Sigurði Nordal, er hún nú sjaldnast notuð án þess að getið sé um útkomu þess ferlis sem hún lýsir – hún er langoftast notuð í sambandinu smætta niður í. Þetta er mikilvægt vegna þess að útkoman er lykilatriði í því hvað smættunin er niðurlægjandi.
Nafnorðið smættun er sem sé til líka – elsta dæmi um það er úr Íslensku máli 1986. Það hefur oft þá merkingu sem búast má við út frá smætta. Orðið smættun er þó líka notað í merkingunni 'reductio', „þegar hugtak eða kenning er skýrð eða skilgreind með öðru hugtaki eða kenningu sem er talin liggja henni til grundvallar“ eins og segir á Vísindavefnum. En smætta er gott dæmi um stutt og lipurt orð sem er gamalt í málinu en var lítið notað og hefur nú gengið í endurnýjun lífdaga og fengið nýtt hlutverk. Slík endurnýting getur oft gefist vel.