Gaslýsing

Í Facebook-hópnum Málspjalli var í vor spurst fyrir um merkingu orðsins gaslýsing sem sést æ oftar, og af því spannst langur þráður. Nú hefur Guðrún Kvaran svarað spurningu um orðið á Vísindavefnum. Ég hef ekkert við það svar að athuga en langar samt til að bæta aðeins við nokkrum vangaveltum um orðið og notkun þess. Guðrún vitnar í grein í Kjarnanum frá 2017 þar sem segir: „Tæknin sem beitt er kall­ast á ensku „gaslight­ing“, eða gas­lýs­ing, og er þekkt póli­tískt bragð. Í henni felst að neita stans­laust allri sök, afvega­leiða, setja fram mót­sagn­ir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll auka­at­riði og hanna nýja atburða­rás eftir á sem hentar mál­stað þess sem er að verja sig.“ Hægt er að finna ýmsar aðrar skilgreiningar á hugtakinu sem víkja eitthvað frá þessari en í meginatriðum held ég samt að notendur þess séu sammála um merkinguna.

En það er ekki hún sem ég ætla að ræða, heldur notkun orðsins í íslensku. Eins og fram kemur í Kjarnanum og á Vísindavefnum er um að ræða tökuþýðingu enska orðsins gaslighting. Uppruna þess er að leita í leikritinu Gaslight frá 1938 og samnefndri kvikmynd frá 1944. Þar er sagt frá „hjónum sem eru hástéttarfólk. Hún tiplar á tánum kringum hann. Hann er ljúfur, síðan kaldlyndur. Hann daðrar við konur en þegar Bella finnur að því er henni sagt að hún „oftúlki allt“. Hann felur eigur hennar svo hún efast um geðheilsu sína. Á kvöldin læðist hann upp á efstu hæð hússins og hækkar í gasljósunum og þá dofna ljósin á neðri hæðinni. Af því er titillinn dreginn.“ Uppruninn er sem sé ljós en ég hef séð notkun orðsins gaslýsing í þessari merkingu í íslensku gagnrýnda á tvennum forsendum.

Annars vegar er sagt að orðið sé ógagnsætt – ekki hægt að ætlast til þess að Íslendingar þekki 80 ára gamla bandaríska kvikmynd. Það er hárrétt, en sama gildir væntanlega um meginhluta fólks sem á ensku að móðurmáli. Við þurfum einfaldlega að læra merkingu líkinga af þessu tagi. Orðið smjörklípa er t.d. iðulega notað um það þegar eitthvað er (réttilega eða ranglega) borið upp á andstæðing sem þarf þá að verja tíma og orku í að bera af sér sakir, þannig að athyglin beinist að honum en ekki að þeim sem bar ásökunina fram. Þetta er rakið til lýsingar Davíðs Oddssonar í sjónvarpsviðtali árið 2006 á því hvernig hann komst upp með ýmislegt umdeilanlegt. Nú er orðið smjörklípa mjög oft notað í þessari merkingu og hefur unnið sér hefð þannig að fólk þarf ekki að þekkja hina upphaflegu sögu Davíðs til að skilja það.

Önnur röksemd gegn notkun orðsins gaslýsing í íslensku er sú að það sé tekið hrátt úr ensku og hafi engin tengsl við íslenskan veruleika þar sem gasljós séu ekki notuð á Íslandi. Ég þykist reyndar vita að gasljós séu minna notuð víðast erlendis en fyrir 80 árum, en það er aukaatriði. Það sem máli skiptir er að við notum í daglegu tali fjölda orða, orðasambanda og málshátta sem eru komin úr öðrum tungumálum og eiga strangt tekið ekki við íslenskar aðstæður. Gott dæmi um það er missa af lestinni sem hefur verið notað í yfirfærðri merkingu í a.m.k. 80 ár þótt hér hafi aldrei verið lestir. Við notum líka máltækið sjaldan fellur eplið langt frá eikinni þótt hér hafi ekki vaxið eplatré (eik var áður notað um hvers kyns stór tré). Ótal fleiri dæmi af svipuðu tagi mætti nefna.

Helstu rökin sem hafa verið færð fram gegn orðinu gaslýsing falla því um sjálf sig því að þau eiga líka við um fjölmörg orð og orðasambönd sem löng hefð er fyrir í málinu og aldrei er amast við. Við notum ýmsar líkingar án þess að þekkja uppruna þeirra af því að við höfum lært merkinguna, og eins notum við fjölda orða og orðasambanda sem eru komin úr erlendum málum og skírskota strangt tekið ekki til íslenskra aðstæðna. Ég get samt alveg tekið undir það að gaman hefði verið að eiga eitthvert gagnsætt orð yfir þá merkingu sem hér um ræðir. En gaslýsing hefur verið notað í málinu í a.m.k. fimm ár, notkun þess hefur aukist verulega að undanförnu, og sífellt fleiri þekkja það og merkingu þess. Ég sé ekki hvað væri unnið með því að hrekja það úr málinu og búa til eitthvert nýtt orð sem þyrfti þá að kynna frá grunni.