Á fæti
Í Fréttablaðinu í dag er frétt með fyrirsögninni „Keyrði ölvaður aftan á strætó og stakk af á fæti“, og í texta fréttarinnar segir „Einstaklingurinn yfirgaf vettvang á fæti“. Þetta er sjaldgæft orðalag – oftast væri sagt gangandi, fótgangandi, hlaupandi, á hlaupum eða eitthvað slíkt. En þetta er fjarri því að vera nýtt. Í Tómas sögu erkibiskups frá því um 1400 segir: „Gengur hann af skipi með öllum skunda og sækir á fæti fund erkibiskups“ og í Flateyjarbók frá svipuðum tíma segir: "Vér munum fara fæti norður á Strandir.“ Þetta er líka notað á síðari öldum – í Skírni 1849 segir: „Nokkrir uppreisnarmanna fóru á fæti og höfðu eflt nokkurn flokk.“
Nýlegri dæmi má einnig nefna. Í Alþýðublaðinu 1945 segir: „En hvernig myndi því þá lítast á það að fara á fæti upp á sjötugustu hæð?“ Í Sjómannablaðinu Víkingi 1948 segir: „Hann óskaði sér þess að geta varið nokkrum dögum til þess að fara á fæti og bátum meðal eyjanna og um þær.“ Í Kirkjuritinu 1963 segir: „Hann fór á fæti, gekk fyrir og valdi veginn.“ Í Tímanum 1980 segir: „vorkunnarlaust að bregða sér bæjarleið fótgangandi, ef svo vildi verkast, þótt fólk verði að hafa tímann fyrir sér, þegar langar leiðir á að fara á fæti.“ Í Víkurfréttum 2008 segir: „Klessti á og flúði á fæti.“ Í Morgunblaðinu 2018 segir: „Því að okkar gamli veruleiki var eins og verið hafði um aldir, menn fóru á fæti eða ríðandi eða á sjó.“
Orðalagið í Fréttablaðinu er sem sé gömul, góð og gild – en vissulega sjaldséð – íslenska, og ástæða til að hrósa blaðinu fyrir að nota það, hvort sem það er komið frá blaðamanni eða úr dagbók lögreglunnar sem fréttin byggist á. En þá ber svo við að fólk hefur allt á hornum sér. Ég var að lesa langan þráð þar sem fólk óskapast yfir þessu orðalagi – ýmist vegna þess að þarna er notuð eintalan fæti (Var maðurinn einfættur? Hoppaði hann á öðrum fæti? Á hvorum fætinum? Tók hann fót af einhverjum?) eða vegna þess að þarna sé „hrein enskusletta“, on foot, sem verði „þessi hroðbjóður, „á fæti““. Þetta étur hver upp eftir öðrum og skiptir engu þótt bent sé á að hér sé um gamalgróið orðalag að ræða.
Það er auðvitað ekkert einsdæmi að nota eintölu orðsins fótur í ýmsum samböndum þótt í raun sé vísað til beggja fóta. Fyrir utan það að fara á fæti er talað um að vera fimur / fljótur / frár / kvikur / léttur / lipur / röskur / snar á fæti. Einnig er til sambandið eiga einhvern á fæti, sagt er að gangan sé á fótinn, og ýmislegt fleira. En það er merkilegt hvað fólk er fljótt að álykta að eitthvað sé enskusletta – og fordæma það þess vegna – bara ef það á sér hliðstæðu í ensku. Það má ekki gleyma því að íslenska og enska eru skyld mál, bæði germönsk, og eiga margt sameiginlegt án þess að annað hafi þegið frá hinu. Eins og áður segir er það mjög gamalt orðalag að nota á fæti í merkingunni 'fótgangandi' og alls ekki komið úr ensku.
En viti menn – meðan ég var að skrifa þennan pistil var fréttinni breytt. Nú er fyrirsögnin „Keyrði ölvaður aftan á strætó og stakk af á hlaupum“, og í texta fréttarinnar segir „Einstaklingurinn yfirgaf vettvang á hlaupum“. Þarna hafa málvendirnir haft sitt fram – tekist að losna við gott og gilt og svipmikið íslenskt orðalag og fengið í staðinn hversdagslega flatneskju. Er það íslenskunni til framdráttar?