Íslenska þarf að vera samkeppnishæf
Mér brá þegar ég frétti að nýnemar í minni gömlu kennslugrein, íslensku á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, væru aðeins ellefu þetta árið. Nýnemar í greininni hafa ekki verið færri síðan einhvern tíma á sjöunda áratugnum eða jafnvel fyrr. Þá var fjöldi nýstúdenta við Háskólann bara brot af því sem nú er þannig að hlutfall íslenskunema af nýnemum er ekki nema brotabrot af því sem það var fyrir meira en hálfri öld. Fjöldinn náði hæstu hæðum kringum 1990 þegar nærri 90 nemendur hófu nám í íslensku tvö ár í röð en hefur farið jafnt og þétt fækkandi síðan.
Þarna er örugglega margt sem spilar saman. Fleiri en ein rannsókn benda til þess að íslenskukennsla, sérstaklega í grunnskólum en að einhverju leyti í framhaldsskólum líka, höfði ekki alltaf nógu vel til nemenda og samræmdu prófin voru skaðræði að mínu mati eins og ég hef oft skrifað um. Við í Háskólanum (ég ber þar þar fulla ábyrgð því að það er ekki svo langt síðan ég hætti störfum) höfum kannski ekki heldur staðið okkur nógu vel í markaðssetningu. Okkur hefur ekki tekist að vekja áhuga á greininni meðal framhaldsskólanema.
En fleira kemur til. Ég hef heyrt að eftir að hafa verið með íslensku á stundaskránni alla sína skólatíð þyki ekki spennandi að fara í háskóla til að læra grein sem heitir íslenska – er það ekki bara meira af því sama? Alþjóðavæðingin hefur líka áhrif – nemendur óttast að lenda í blindgötu ef þau fara í íslensku, vilja eiga þess kost að búa og starfa erlendis og telja að námið nýtist þeim ekki þar, o.s.frv. Neikvæð umræða um mál ungs fólks hefur líka áhrif – það er alltaf verið að segja unglingum að þau kunni ekki íslensku, skamma þau fyrir að sletta ensku of mikið, o.s.frv.
Nú má vissulega segja að við þurfum ekki á því að halda að mennta meira en tug fólks á ári í í íslensku. Ég er reyndar ósammála – það hefur sýnt sig að íslenskunám nýtist fólki í fjölmörgum og fjölbreyttum störfum og okkur veitir ekkert af því að útskrifa fleiri með háskólamenntun í íslensku. En það er í sjálfu sér aukaatriði. Aðalatriðið er það að þessi fækkun nemenda ber skýrt vitni um stöðu íslenskunnar í huga ungs fólks. Hún er ekki spennandi. Hún er ekki kúl. Hún er ekki grein sem unga fólkið hefur áhuga á að læra í háskóla. Hún höfðar ekki til ungs fólks. Það er verulega alvarlegt.
Þótt hugsanlega megi rekja minnkaðan áhuga á íslenskunámi að einhverju leyti til kennslunnar í grunn- og framhaldsskólum, og til þess að háskólakennarar í greininni hafi ekki staðið sig í markaðssetningu, er það ekki frumástæðan heldur birtingarmynd miklu stærra máls – stöðu íslenskunnar í samfélaginu. Staðreyndin er sú að við höfum ekki sinnt íslenskunni nógu vel, ekki hugsað nógu vel um að sýna málnotendum fram á gildi hennar fyrir okkur og fyrir samfélagið. Móðurmálið er hluti af sjálfsmynd okkar, hluti af okkur sjálfum. Við þurfum að rækta þann hluta á jákvæðan og uppbyggjandi hátt – ekki sem skyldu.
Það þýðir ekkert að reka áróður fyrir íslenskunni á einhverjum þjóðernisforsendum. Það virkaði ágætlega í upphafi síðustu aldar en ekki lengur. Með því er ég ekki að segja að íslenskan skipti ekki máli fyrir okkur. Auðvitað gerir hún það. En við verðum samt að átta okkur á því að til þess að unga fólkið hafi áhuga á henni, vilji nota hana á flestum sviðum, rækta hana og varðveita, verður hún að vera samkeppnishæf. Við þurfum að geta boðið unga fólkinu áhugaverða afþreyingu og fræðslu á íslensku, nútímalegt og smekklegt kennsluefni – og nýjan málstaðal sem stendur nær því máli sem þau hafa tileinkað sér og tala.
Góðu fréttirnar eru þær að þetta er hægt. Það er engin ástæða til svartsýni um íslenskuna og framtíð hennar – ef við sinnum henni, hvert og eitt. Stjórnvöld hafa gert vel í að byggja upp íslenska máltækni en þurfa að stórauka annan stuðning við íslenskuna – við útgáfu kennslu- og fræðsluefnis, við bókaútgáfu, kvikmyndagerð og hvers kyns afþreyingu á íslensku. Framar öllu þarf að gera stórátak í kennslu íslensku sem annars máls, með sameinuðu átaki stjórnvalda og atvinnurekenda. En þetta hrekkur skammt ef við, almennir málnotendur, leggjumst ekki líka á árarnar við að gera íslensku sjálfsagða á öllum sviðum.