Stórátak í íslenskukennslu – núna!

Í gær kom fram á Morgunvaktinni á Rás eitt í Ríkisútvarpinu að um fjórðungur fólks á íslenskum vinnumarkaði væri nú af erlendum uppruna, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, spáði því að eftir 20-30 ár yrði sú tala komin í 40-50%. Vitanlega mun erlent vinnuafl ekki dreifast jafnt á öll störf. Við vitum að fólk af erlendum uppruna er helst að finna í ákveðnum starfsgreinum og þannig verður það væntanlega í meginatriðum áfram. Það er ljóst að þessi þróun felur í sér grundvallarbreytingar á íslensku þjóðfélagi og við þurfum að hugsa fyrir því hvernig við tökumst á við þær.

Þótt fólk sem hingað kemur að vinna í framtíðinni muni væntanlega í auknum mæli koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, eins og fram kom í þættinum, er nokkuð öruggt að enska verður, í byrjun a.m.k., samskiptamál þess á vinnumarkaði – við íslenska yfirmenn og samstarfsfólk, en einnig milli fólks sem hefur ólík móðurmál, önnur en íslensku. En spurningin er hvað gerist í framhaldinu – heldur fólkið áfram að nota ensku sem samskiptamál, ekki bara í vinnunni heldur einnig á öðrum sviðum, og lærir ekki íslensku nema þá að mjög takmörkuðu leyti? Til hvers gæti það leitt?

Ef það gerist verðum við komin í mjög alvarlega stöðu eftir 20-30 ár. Þá verðum við með tvískiptan vinnumarkað – láglaunastörf þar sem yfirgnæfandi fólks verður af erlendum uppruna og samskipti fara að mestu leyti fram á ensku, og svo betur launuð störf mönnuð Íslendingum, sem samt munu nota ensku mikið í samskiptum við fólk af erlendum uppruna, til viðbótar annarri enskunotkun sem er mikil nú þegar. Það þarf ekki að hugsa mikið um þetta til að átta sig á því hvaða áhrif slík staða gæti haft á íslenskuna. Staða hennar sem burðarás samfélagsins og viðnámsþróttur gegn erlendum áhrifum myndi veikjast verulega.

Viðbrögð okkar eiga ekki að vera að berjast gegn þessari þróun og loka landinu – það er hvorki skynsamlegt né mögulegt. Okkur vantar fleira fólk. En ef við viljum að íslenska verði áfram aðaltungumál landsins verður að gera kröfur um íslenskukunnáttu fólks sem kemur hingað til að vinna, a.m.k. þeirra sem dveljast hér meira en einhvern stuttan tíma. Það er hins vegar bæði ósanngjarnt og óframkvæmanlegt að gera slíkar kröfur án þess að gera um leið stórátak í því að auðvelda fólki íslenskunámið – auka framboð á góðu kennsluefni og námskeiðum, gera fólki kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma, o.s.frv.

Ef þetta verður ekki gert eigum við á hættu að íslenska verði ekki aðaltungumál landsins um miðja öldina. Ef allt að helmingur fólks á vinnumarkaði verður af erlendum uppruna, og verulegur hluti þess fólks talar ekki íslensku, verður hún alltaf víkjandi í samskiptum fólks á ýmsum sviðum – ekki bara á mörgum veitingastöðum eins og er orðið nú þegar, heldur í flestum verslunum, margvíslegri annarri þjónustu og víðar. Þegar svo er komið er skammt í að ungt fólk sjái ekki tilganginn í að tileinka sér þetta tungumál sem hefur svona takmarkað notkunarmöguleika og skipti alveg yfir í ensku.

Þetta hljómar bölsýnislega en góðu fréttirnar eru þær að þetta þarf ekki að fara svona – alls ekki. Ég hef fulla trú á því að íslenskan geti haldið stöðu sinni sem aðaltungumál samfélagsins og burðarás þess. En til þess þurfum við að styðja hana af öllum mætti og gera stórátak í kennslu íslensku sem annars máls – núna. Því lengur sem við bíðum, þeim mun erfiðara verður að snúa af þeirri braut sem við erum á. Þeim mun vanari verðum við orðin enskunni allt í kringum okkur, þeim mun hraðar mun hún flæða yfir okkur og yfirtaka fleiri svið. Þetta þolir enga bið.