Kallað eftir nýju kennsluefni í íslensku

Í gær skrifaði ég í Facebook-hópinn Málspjall um fækkun nýnema í íslensku við Háskóla Íslands. Þetta vakti nokkra athygli og Morgunblaðið skrifaði um það frétt. Mörg ágæt ummæli voru skrifuð við þessa færslu mína en ein fundust mér sérstaklega áhugaverð:

„Ég starfa sem framhaldsskólakennari á öðru ári og það kom mér á óvart hversu lítill áhugi nemenda er á greininni. Hluti ástæðunnar gæti verið hversu lítið námsefnið hefur breyst að undanförnu. Nemendur í dag alast upp í allt öðru samfélagi og eru vanari mun meiri hraða en ýmsar íslenskar bókmenntir bjóða uppá. Mín upplifun er að þeim finnst menningararfurinn okkar almennt mjög áhugaverður en að mörgu leyti „óaðgengilegur“ fyrir þessa kynslóð. Langir textar og langdregnir, sem eru oft á tungumáli sem þau skilja ekki nægilega vel til að njóta, eru ekki að grípa áhuga þeirra. Ég myndi vilja stórátak í að gera þessa texta aðgengilegri fyrir bæði ungmenni og fólk af erlendum uppruna.“

Ég held að þarna sé komið að kjarna málsins. Nemendur hafa alist upp í allt annars konar þjóðfélagi en við flest í þessum hópi, og annars konar þjóðfélagi en flestir kennarar þeirra. Við áttum okkur ekki endilega á því hvað þetta þýðir. Og jafnvel þótt við áttum okkur á því vitum við ekki endilega hvernig á að bregðast við. Og jafnvel þótt við teljum okkur vita það er óvíst að við höfum eða kunnum á þau tól og tæki, í þessu tilviki kennsluefni og kennsluaðferðir, sem þarf til að bregðast við. Gerbreytt þjóðfélag kallar auðvitað á gerbreytt kennsluefni og gerbreyttar kennsluaðferðir. Ég efast ekkert um að fjöldi kennara átti sig á því, og reyni að koma til móts við nemendur á þeirra forsendum. En það er hægara sagt en gert.

Hér er nefnilega komið að öðru efni sem rætt var um hér fyrr í vikunni – tilfinnanlegum skorti á góðu kennsluefni. Vegna þess að nemendur – eða foreldrar – þurfa að kaupa kennslubækur framhaldsskóla, öfugt við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, leita þau eðlilega allra leiða til að lækka bókakostnaðinn. Þótt skiptibókamarkaðir séu hagstæðir fyrir nemendur eru þeir rothögg fyrir bókaútgáfu og draga stórkostlega úr endurnýjun kennsluefnis á íslensku og áhuga útgefenda á útgáfu nýs kennsluefnis. Þess vegna sitjum við uppi með gamalt og úrelt kennsluefni sem nemendur lesa í snjáðum og misvel förnum bókum. Í sumum greinum er gripið til þess ráðs að nota erlendar kennslubækur – en þar er ekki hægt í íslensku.

Til að bæta úr skorti á hentugu kennsluefni eru kennarar oft að útbúa fjölrit með efni sem þau telja að henti nemendum. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert, en getur þó reynst tvíbent þegar að er gáð. Hvað varðar allan frágang og útlit standast myndalaus fjölrit auðvitað engan samanburð við myndskreyttar erlendar kennslubækur prentaðar í lit á glanspappír. Fjölritað íslenskukennsluefni á ekki séns í fjölbreytt enskukennsluefni á bók eða margmiðlunarformi. Gamalt eða ósjálegt kennsluefni hefur vitaskuld áhrif á viðhorf nemenda til kennslugreinarinnar. Íslenska er í sauðalitunum – enska er í öllum regnbogans litum. Íslenska er gamaldags – enska er nútímaleg. Íslenska er dauf – enska er fjör.

Eins og segir í ummælunum sem ég vitnaði í hér að framan skortir ekki áhuga nemenda á íslenskum menningararfi og ég er sannfærður um að það er hægt að vekja áhuga þeirra á íslensku máli líka. En okkur vantar hentugt efni til að miðla þessu til þeirra. Það er ekki við því að búast að hinn frjálsi markaður framleiði slíkt efni. Ríkið verður að koma til – standa fyrir og styrkja myndarlega útgáfu hentugs kennsluefnis sem nær til nemenda. Og þetta má ekki verða dæmigert íslenskt „átaksverkefni“ sem lýkur um leið og einhver árangur fer að koma í ljós. Þetta þarf stöðugt að vera í gangi. Það er að segja, ef við viljum halda áfram að tala íslensku. Ef við viljum það ekki skulum við bara segja það.