„Heldur þann versta en þann næstbesta“

Þið hélduð kannski að það væri búið að afgreiða Oatly-auglýsinguna? Ég held nú síður. Áðan sá ég mynd á Facebook með þeim ummælum „að skárra væri að hafa textann á ensku en að ráða ekki við að snara honum á íslensku skammlaust“, og í umræðum sagðist sá sem setti þetta inn telja „ensku skárri en ambögur“. Þetta virðist vera viðhorf margra, ef marka má þær undirtektir sem þess færsla fékk. Þetta felur í sér þá hugmynd að íslenska sé einhver ósnertanleg helgimynd sem enginn blettur megi falla á. Betra að hafa ensku en þá íslensku er stórum hluta þjóðarinnar eðlileg, þótt hún sé ekki í samræmi við málstaðalinn.

En þetta er stórhættulegt viðhorf og í raun tilræði við íslenskuna. Það er þetta viðhorf sem fælir marga útlendinga frá því að læra íslensku. Þeir verða fyrir því hvað eftir annað að viðmælendur skipta yfir í ensku af því að íslenska þeirra er ekki fullkomin. En það er líka þetta viðhorf sem á stóran þátt í áhugaleysi ungs fólks um viðgang íslenskunnar. Það er sífellt verið að leiðrétta það og segja því að það tali ekki íslensku. Þegar það sér því svo haldið fram að skárra sé að nota ensku en það mál sem því er eiginlegt eigum við á hættu að það taki okkur á orðinu og skipti einfaldlega yfir í ensku. Er þá ekki verr af stað farið en heima setið?

„Heldur þann versta en þann næstbesta“ sagði Snæfríður Íslandssól. Heldur ensku en íslensku venjulegs fólks.