Að axla ábyrgð – eða ekki

Ein algengasta klisja sem notuð hefur verið í íslenskri umræðuhefð undanfarna áratugi er að axla ábyrgð. Elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1957 og fram til 1970 eru aðeins tíu dæmi um sambandið. Þeim fer að fjölga um miðjan áttunda áratuginn og hefur síðan fjölgað jafnt og þétt – voru t.d. meira en þrisvar sinnum fleiri á árunum 2000-2009 (2542) en tuttugu árum áður, 1980-1989 (783). Hæpið er að það sýni að ábyrgðartilfinning Íslendinga hafi aukist svo mjög í seinni tíð – augljóslega er þetta klisja sem hefur komist í tísku og er notuð í tíma og ótíma. Þegar árið 1998 var þetta orðið áberandi og þá skrifaði Ásgeir Sverrisson í Morgunblaðinu:

„Orðasambandið „að axla ábyrgð“ hefur svo gjörsamlega tröllriðið fjölmiðlum í landinu á síðustu vikum að meira að segja skólabörn eru tekin „að axla þá ábyrgð“ að fylgja settum reglum um útivistartíma. Foreldrum er gert „að axla þá ábyrgð“ að tryggja að afkvæmi þeirra noti reiðhjólahjálma […]. Fréttamenn spyrja hvort tilteknum gæfumönnum beri ekki „að axla ábyrgð“, almenningur krefst þess að ráðamenn „axli ábyrgð“ og sjálfir segja stjórnvitringarnir og skósveinar þeirra að réttum aðilum beri „að axla ábyrgð“. Öllum ber „að axla ábyrgð“ nema vitanlega þeim sem úthellt hefur speki sinni í hvert eitt skiptið.“

En hvað felst í því að axla ábyrgð? Árið 2007 birti Jón G. Friðjónsson bréf frá Sigurði Karlssyni í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu. Þar sagði: „Að lokum langar mig að minnast á orðasambandið axla ábyrgð. Það virðist ekki lengur notað nema í merkingunni ‘að segja af sér’. […] Minn málskilningur segir mér að það að axla ábyrgð hafi einkum tvenns konar merkingu. Annars vegar að maður taki á sig tiltekna ábyrgð, t.d. formennsku í stjórnmálaflokki, og hins vegar að maður taki ábyrgð á gerðum sínum hafi hann brotið eitthvað af sér.“ Jón sagði að orðasambandið virtist vera nýtt af nálinni, og því gagnlegt að velta merkingunni fyrir sér.

Skýringin á axla í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'taka á sig (ábyrgð, verkefni)' og það stemmir við minn skilning á þessu sambandi. Fólk sem axlar ábyrgð tekur á sig ábyrgð á einhverju, orðum eða gerðum, sem það hefur ekki endilega komið nálægt. Ráðherra getur t.d. axlað ábyrgð á verkum einhvers undirmanns síns þótt honum hafi verið alls ókunnugt um þau og þau jafnvel verið í blóra við vilja hans. En að axla ábyrgð felur líka í sér afleiðingar. Ráðherrann í dæminu á undan gæti þurft að segja af sér (þótt það gerist aldrei á Íslandi) eða mátt þola hrakfarir í næsta prófkjöri eða kosningum.

Það ber hins vegar við að orðasambandið sé notað á annan hátt – notað í sömu merkingu og bera ábyrgð. En á þessu tvennu er – eða var – grundvallarmunur. Fólk ber ábyrgð á tilteknum hlutum, samkvæmt lögum, siðareglum eða almennum venjum í mannlegum samskiptum, og undan þeirri ábyrgð verður ekki vikist, hún er ekki valkvæð – en hún hefur ekki endilega neinar afleiðingar. Fólk getur hins vegar hafnað því að axla ábyrgð, sem felur þá í sér að það neitar að taka afleiðingum sinna eigin gerða – eða eftir atvikum fjölskyldumeðlima, undirmanna eða annarra sem fólk hefur með einhverjum hætti í umsjá sinni.

Þetta höfum við stundum séð í pólitískri umræðu. Stjórnmálafólk kemur í viðtöl og segist með ábúðarfullum svip munu axla ábyrgð á umdeildum verkum sínum. Eins og það hafi eitthvert val. Við kinkum kolli og hrósum því fyrir ábyrga afstöðu. En svo gerist ekki neitt. Þarna er nefnilega bara verið að segja það sem augljóst er og óumdeilt, að fólkið ber ábyrgð á þessum verkum. En það hefur engar afleiðingar fyrir það. Öðru máli gegnir hins vegar þegar stjórnmálafólkið segir við okkur að við verðum öll að axla ábyrgð á þessu. Þá vitum við hvað til okkar friðar heyrir. Þá hefur ábyrgðin afleiðingar – fyrir okkur, venjulegt fólk.