Að banna frá þátttöku

Orðasambandið banna frá í merkingunni 'útiloka frá, meina aðgöngu / þátttöku' er orðið nokkuð algengt. Það virðist vera upprunnið í íþróttamáli og hefur verið langmest notað þar en kemur þó einnig fyrir í öðru samhengi. Elsta dæmi sem ég hef rekist á er í NT 1985: „Það hefur ekki gerst síðan 1919, þegar átta leikmenn voru bannaðir frá keppni ævilangt fyrir mútuþægni.“ En eftir það finn ég ekki dæmi fyrr en árið 2000. Þá segir í Morgunblaðinu: „Þar af leiðandi eiga lið sem eru í mikilli skuld á hættu að verða bönnuð frá slíkri keppni og einnig keppni í meistaradeild Evrópu og Evrópubikarkeppninni.“

Fleiri dæmi má finna frá sama ári, m.a. „Bílar voru þá bannaðir frá brautarsvæðinu á laugardegi vegna aurbleytu á bílastæðum“ og „Sam­tök sem berj­ast gegn kynþátta­for­dóm­um hafa kraf­ist að Jonathan Wood­ga­te og Lee Bowyer, leik­menn enska úrvalsdeildarliðsins Leeds, verði bannaðir frá öll­um leikj­um í Englandi þar til mann­orð þeirra verði hreinsað“ á mbl.is. Á vefnum fótbolti.net sem var opnaður 2002 hefur þetta samband verið mjög algengt alla tíð og á seinustu árum hefur það breiðst út til helstu fjölmiðla – elsta dæmið sem ég fann á vef Ríkisútvarpsins er frá 2015 og elsta dæmið úr Fréttablaðinu frá 2018.

Orðasambandið er langoftast notað um fólk og það virðist einkum þrennt sem fólk er bannað frá. Það eru í fyrsta lagi ýmiss konar störf eða athafnir – fólk er bannað frá að spila, afskiptum af knattspyrnu, dómgæslu, fótbolta, knattspyrnuiðkun, því að leika í skosku úrvalsdeildinni o.s.frv. Í öðru lagi eru viðburðir – fólk er bannað frá keppnisleikjum, æfingum, meistaradeildinni o.s.frv. Í þriðja lagi eru staðir – fólk er bannað frá búningsherbergi, hliðarlínunni, hótelinu, Kazakstan, nektardansstöðum, spilavítum, Old Trafford o.s.frv. Skilin milli þessara þriggja flokka eru reyndar ekki alltaf skýr.

Sjálfsagt má halda því fram að á bak við þetta liggi upphaflega einhver ensk áhrif en það er þó ekki svo að þetta sé bein þýðing á einhverju tilteknu ensku orðasambandi. Að banna frá getur samsvarað a.m.k. þremur enskum sögnum, eftir aðstæðum og samhengi – ban, exclude og suspend. Væntanlega er einnig um að ræða áhrif frá hliðstæðu sambandi með nafnorði í stað sagnar, bann frá, sem á sér mun lengri sögu í málinu. Í Morgunblaðinu 1970 segir: „Þjálfari liðsins, Marco, var dæmdur í bann frá allri þjálfun til ársloka 1972.“ Í Tímanum 1973 segir: „Þeir voru þá settir í ævilangt bann frá enskum úrvals- og landsliðum.“

Vitanlega væri hægt að orða þessa merkingu öðruvísi á íslensku – segja t.d. honum var meinað að spila, honum var bannað að mæta á æfingar, hann var útilokaður frá þátttöku í keppnisleikjum, hann var gerður brottrækur frá hótelinu, o.s.frv. En það þýðir ekki að ástæða sé til að amast við banna frá. Það samband fullnægir öllum skilyrðum til að teljast málvenja, og þar með rétt mál – það er meira en 20 ára gamalt, er algengt á prenti, er eðlilegt mál fjölda fólks, og ekkert bendir til annars en börn sem tileinka sér það á máltökuskeiði haldi því í máli sínu á fullorðinsárum. Mér finnst sjálfsagt að bjóða þetta samband velkomið í málið en ástæðulaust að láta það útrýma öðrum.