Gagnrýnin hugsun og orðræðugreining

Undanfarinn aldarfjórðung hefur ótalmargt í umhverfi okkar breyst, en fátt hefur þó breyst eins mikið og uppsprettur upplýsinga. Fram á tíunda áratug síðustu aldar fengum við mikið af upplýsingum okkar úr dagblöðum sem voru fimm, þar af þrjú opinber og yfirlýst flokksblöð og eitt óopinbert. Þessi blöð drógu að meira eða minna leyti taum flokkanna í fréttaflutningi sínum – en við vissum það og lásum fréttirnar með það í huga. Nú fáum við megnið af upplýsingum okkar á netinu – bæði frá innlendum og erlendum fréttamiðlum, en ekki síður frá samfélagsmiðlum. Þetta gerir allt aðrar kröfur til okkar um fréttamat.

Við erum að drukkna í upplýsingum og vitum að þær eru mistraustar. En við höfum ekki fengið mikla þjálfun í heimildarýni – í því að meta trúverðugleik upplýsinga sem við fáum. Ég hef áður sagt að ekkert sé brýnna að kenna í skólum landsins en orðræðugreiningu. Það hellist yfir okkur svo mikið af falsfréttum að það er lífsnauðsyn að fólk læri að greina sannleikann, hverju verið er að lauma að okkur, hverju á að láta okkur trúa, hvaða viðhorfum á að koma inn hjá okkur. Við megum ekki gleypa athugasemda- og gagnrýnislaust við hverju sem að okkur er rétt, undir yfirskini frétta eða fróðleiks.

Nú á dögum eru flest stærri fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir og ráðuneyti með á sínum snærum kynningarstjóra, fjölmiðlafulltrúa, almannatengla, samskiptaráðgjafa og hvað það heitir. Fólkið sem velst í þessi störf hefur oftast fjölbreytta menntun og reynslu sem nýtist því – hefur oft starfað á fjölmiðlum um lengri eða skemmri tíma og er vant því að skrifa upplýsandi texta sem ná til fólks. Hlutverk þeirra er margvíslegt – að hafa samskipti við fjölmiðla og almenning, útbúa kynningarefni, svara fyrirspurnum o.s.frv. Síðast en ekki síst: Að skapa jákvæða ímynd af vinnuveitandanum.

Við þessa ímyndarsköpun er beitt fjölbreyttum aðferðum, en það sem okkur varðar er sú hlið sem snýr að tungumálinu. Það skiptir máli hvaða orð eru notuð og hver setningagerðin er. Vitaskuld er ekkert við þetta að athuga. Það er eðlilegt og sjálfsagt að vilja skapa sér jákvæða ímynd, og svo framarlega sem ekki er beinlínis farið rangt með er eðlilegt að tungumálinu sé beitt af kunnáttu í þeim tilgangi. Það er hins vegar hlutverk okkar, almennra málnotenda, að rýna í textann – skoða hann með gagnrýnu hugarfari, velta fyrir okkur hvað sé raunverulega verið að segja, hvað liggi á bak við, og hvað kunni að vera ósagt.

Þetta verkefni okkar er ekki einfalt en mikilvægt að þjálfa sig í því. Dæmi um orðræðugreiningu af þessu tagi má sjá í þremur pistlum sem ég skrifaði í fyrra um þrjár fréttatilkynningar útgerðarfyrirtækja – „Misnotkun tungumálsins“, „Orðræðugreining fyrir byrjendur“ og „Orðræðugreining fyrir lengra komna“. En eftir á að hyggja er titillinn „Misnotkun tungumálsins“ ekki sanngjarn. Það er ekki endilega um misnotkun að ræða þótt stjórnendur fyrirtækis beiti tungumálinu á þann hátt að þeirra hlutur verði sem bestur. Það er eðlileg málnotkun – frá þeirra sjónarmiði. Það er hins vegar okkar að sjá í gegnum hana.