Orðræðugreining fyrir lengra komna

Þótt margt hafi þegar verið skrifað um nýjustu „afsökunarbeiðni" Samherja vil ég ekki láta mitt eftir liggja með að greina orðræðuna í henni.

„Ámælisverðir viðskiptahættir fengu að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu.“

Í upphafi er notað lýsingarorðið „ámælisverðir“ – miklu vægara orð en „saknæmir“, „vafasamir“ eða önnur svipuð sem hefðu komið til greina. Notuð er miðmyndarsögnin „viðgangast“ sem hefur engan geranda – það gerði enginn neitt, það bara gerðist. En það er ekki einu sinni sagt „viðgengust“, heldur „fengu að viðgangast“ – svona eins og til að gefa í skyn að einhverjir aðrir, t.d. eftirlitsaðilar, hefðu átt að bregðast við. Ekki er sagt „viðskiptahættir okkar voru ámælisverðir“.

„Veikleikar voru í stjórnskipulagi og lausatök sem ekki áttu að líðast.“

Hér kemur nánari útfærsla á því hvers vegna viðskiptahættirnir voru „ámælisverðir“ – það fólst ekki í saknæmum athöfnum, heldur í því að „veikleikar í stjórnskipulagi“ og „lausatök“ voru í rekstrinum.

„Við brugðumst ekki við eins og okkur bar.“

Það er athyglisvert að hér er allt í einu skipt yfir í germynd – „Við brugðumst ekki við“ – eins og eina sök fyrirtækisins felist í lélegri stjórnun. Jú, við létum þetta dankast, en við gerðum ekkert af okkur. Og hverjir eru þessir „við“?

„Þetta hefur valdið uppnámi hjá starfsfólki okkar, fölskyldum, vinum, samstarfsaðilum, viðskiptavinum og víða í samfélaginu.“

Hér er byrjað á ábendingarfornafninu „þetta“ sem ekki er alveg ljóst í hvað á að vísa – væntanlega í „veikleika í stjórnskipulagi“ og „lausatök“ sem nefnd eru í efnisgreininni á undan. Orðalagið „valdið uppnámi“ er ekki mjög nákvæm lýsing á sakamálarannsókn í þremur löndum. Röðin á þeim sem eru beðin afsökunar er athyglisverð – byrjað á starfsfólki, fjölskyldu og vinum sem „veikleikar í stjórnskipulagi“ og „lausatök“ hafa varla angrað mikið. Hins vegar er alveg sleppt að nefna almenning í Namibíu.

„Við hörmum þetta og biðjumst einlæglega afsökunar.“

Hér er aftur ekki alveg ljóst til hvers „þetta“ vísar - væntanlega þess að hafa „valdið uppnámi“. Það er ekki beðist afsökunar á gerðum fyrirtækisins, heldur á viðbrögðum annarra. Eins og oft vill verða varpar „afsökunarbeiðnin“ því ábyrgð á aðra.

„Það geri ég persónulega sem forstjóri og einnig fyrir hönd félagsins sem ætíð hefur haft vönduð vinnubrögð að leiðarljósi í allri sinni starfsemi.“

Að hafa „vönduð vinnubrögð að leiðarljósi“ merkir ekki það sama og „ástunda vönduð vinnubrögð“. Það er hægt að hafa fallega stefnu án þess að fylgja henni eftir í verki. Ýmis dæmi hafa verið nefnd um óvönduð og vafasöm vinnubrögð Samherja og nærtækast að vísa í „afsökunarbeiðni“ fyrirtækisins nýlega vegna starfsemi „skæruliðadeildar“ þess.

„Við viljum ekki láta við það sitja að biðjast afsökunar heldur draga lærdóm af þessum mistökum og tryggja að ekkert slíkt gerist aftur.“

Enn er dregið úr – „mistök“ er mun vægara orð en „ámælisverðir viðskiptahættir“ sem gengist var við í upphafi.

„Í því skyni höfum við gripið til viðamikilla ráðstafana.“

Ekki er minnst á það í hverju þessar ráðstafanir felist þannig að þetta segir ekki neitt.

„Frá upphafi hefur það verið meginmarkmið okkar að framleiða hágæða sjávarafurðir í sátt við umhverfið með ríka áherslu á sjálfbærni og góða umgengni við auðlindir sjávar. Við viljum halda því áfram og horfa fram á veginn.“

Hér kemur sjálfshól um fyrirtækið, skreytt með frösum eins og „í sátt við umhverfið“, og „með ríka áherslu á sjálfbærni“. Þetta kemur málinu ekkert við en er til þess ætlað að skapa jákvæða ímynd og milda hug lesenda þannig að þeir fyrirgefi frekar „mistökin“.

„Mistök okkar í Namibíu eru ekki síst okkur sjálfum mikil vonbrigði. Við munum ekki láta slíkt henda aftur.“

Sem sagt: Við pössum okkur á því í framtíðinni að láta ekki komast upp um okkur.