Frumlagsfall í þolmynd

Ég rakst á fyrirsögn sem er skemmtilegt dæmi um hvernig föll breyta stundum merkingu. Þarna er notað nefnifall, „Fornbílasafn í Brákarey verður lokað í sumar“, ekki þágufall, „Fornbílasafninu í Brákarey verður lokað í sumar“ – sem væri fullkomlega eðlileg og rétt setning, en merkir ekki það sama. Ef nefnifall er notað er um germynd að ræða og lokað er þar lýsingarorð – setningin lýsir ekki athöfn eða aðgerð, heldur stöðu mála. Sé notað þágufall er setningin þolmynd og lokað er þá lýsingarháttur þátíðar – setningin lýsir athöfn. Í þessu tilviki skiptir þetta þeim mun meira máli vegna þess að ekki er ljóst hvort lokunin er tímabundin, eins og fyrirsögnin gefur til kynna, eða til frambúðar, eins og þágufallið segði.

Föll eru skemmtileg. Stundum skiptir engu fyrir merkinguna hvort notað er þolfall eða þágufall – þótt fólk kunni að hafa mismunandi skoðanir á því hvort eigi að segja mig langar eða mér langar, þora það eða þora því, spá í þetta eða spá í þessu er ljóst að bæði afbrigðin merkja það sama. En það skiptir hins vegar máli hvort sagt er klóra einhvern eða klóra einhverjum eða fara með einhvern í bæinn eða fara með einhverjum í bæinn. Og í þessu tilviki skiptir heilmiklu máli hvort notað er nefnifall eða þágufall – hvort sagt er safnið verður lokað eða safninu verður lokað.