Gömul tillaga um hán

Orðið hán er þriðju persónu fornafns í hvorugkyni sem notað er í vísun til kynsegin fólks (í stað það sem er ekki heppilegt af ýmsum ástæðum). Þetta fornafn var kynnt í grein Öldu Villiljóss í vefritinu Knúz haustið 2013 . En nýlega komst ég að því fyrir tilviljun að tillaga um hán sem kynhlutlaust fornafn hafði verið sett fram 14 árum fyrr, e.t.v. þó ekki í fullri alvöru.

Árið 1999 birti Baldur Sigurðsson dósent greinina „Hann, hún eða hvort“ í kverinu Helgispjöll framin Helga Skúla Kjartanssyni fimmtugum, 1. febrúar 1999. Þar fjallar hann um nauðsyn kynhlutlauss fornafns og segir:

„Einfaldast væri auðvitað að nota hvorugkynið, það, um einstakling óháð kyni, en sú lausn hefur ekki fengið mikinn hljómgrunn af einhverjum ástæðum. [...] Því blasir við að finna þarf nýtt persónufornafn í íslensku, jafn stutt, þjált og notagott og fornöfn eiga að vera, sem nota má til að vísa til einstaklinga óháð kyni, ekki hvorugkyn, heldur samkyn. Ekki er alveg hlaupið að því að smíða slíkt fornafn en þó er nokkuð ljóst að einhvern svip verður það að hafa af þeim fornöfnum sem fyrir eru.“

Síðan er vitnað í tillögu sem hafi komið fram í Svíþjóð 1993 um að steypa han og hon saman í haon - ekki er minnst á hen sem er þó mun eldra. En svo segir:

„Vel kemur til greina að leysa vandann í íslensku á svipaðan hátt og smíða fornafnið húan með kvenkynssérhljóðið á undan, eða haún, ef karlkynið fær að vera fyrst. […] Með því að hleypa sérhljóði karlkynsins á undan fáum við […] mun kunnuglegra – og margir myndu segja þekkilegra – tvíhljóð í fornafninu: haún, sem fljótlega myndi fá stafsetninguna hán. Fornafnið hán virðist afskaplega vænt fornafn, stutt og þjált í framburði, gott til undaneldis og á vetur setjandi.“