gærnótt og fyrragær

Í Málfarsbankanum segir: „Rétt er að segja í fyrrinótt þegar átt er við nóttina fyrir daginn í gær. Ekki hefur tíðkast að nota orðin „í gærnótt“ í þessari merkingu né nokkurri annarri merkingu.“ Það er auðvitað skilgreiningaratriði hvað hefur „tíðkast“ en orðið gærnótt er alls ekki óþekkt. Elsta (og raunar eina) dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar um það er frá 1836 – úr bréfi frá sjálfum Sveinbirni Egilssyni sem venjulega er talinn einn orðhagasti maður sem skrifað hefur á íslensku: „Kammerráð Finsen sálaðist í gærnótt af febri nervosa.“ Á tímarit.is er 231 dæmi um gærnótt, hið elsta frá 1945 en meira en helmingur frá síðustu 20 árum, og í Risamálheildinni eru 326 dæmi um orðið.

En Málfarsbankinn er ekki einn um að amast við gærnótt. Í lesendabréfi í Morgunblaðinu 1998 var orðið kallað „barnamál“ og „orðskrípi“. Gísli Jónsson minntist nokkrum sinnum á orðið í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu – árið 1987 kallaði hann það „furðulegt málblóm“ og sagði að það hefði í sínu ungdæmi verið „talið til afglapamáls“. Síðar virðist hugur hans í garð orðsins þó hafa mildast því að 1995 sagði hann: „En það angrar mig ekki neitt, enda auðvelt að vitna í orðin gærmorgunn og gærdagur. Mér finnst í fljótu bragði að „gærnótt“ sé ekki bráðnauðsynlegt orð.“

Orðið gærnótt er vitanlega ekkert „orðskrípi“. Það er ekkert óeðlilegt við að málnotendur grípi til þess – eins og hér hefur komið fram er það myndað á nákvæmlega sama hátt og gærmorgunn, gærdagur og gærkvöld og fyllir upp í eyðu í því mynstri. En venjulega er höfðað til þess að ekki sé hefð fyrir orðinu: „Vissulega er talað um gærdag, gærkvöld eða gærmorgun, en gærnótt hefur ekki verið notað í máli okkar fram að þessu“ segir Jón Aðalsteinn Jónsson. En hvað með það? Ef aldrei mætti nota orð nema hefð væri fyrir því kæmu auðvitað engin ný orð inn í málið.

Það er auðvitað rétt að orðið er ekki „bráðnauðsynlegt“. En það verður varla notað sem rök gegn því – sama má segja um mikinn fjölda annarra orða. Orðið gærdagur er t.d. „óþarft“ ef út í það er farið – í stað þess að segja í gærdag væri alveg nóg að segja í gær. Vandinn við gærnótt er hins vegar sá að það virðist vera notað í tveimur mismunandi merkingum – þegar sagt er þetta gerðist í gærnótt er ekki alltaf ljóst hvort merkingin er ʻþetta gerðist í nótt (síðastliðna nótt)ʼ eða ʻþetta gerðist í fyrrinótt (nóttina fyrir gærdaginn)ʼ. Kannski er það þessi óvissa sem veldur því að þetta annars ágæta orð er margfalt minna notað en systkini þess.

Annað skylt orð sem sem Gísli Jónsson nefndi í tengslum við gærnótt og gaf ekki betri umsögn er fyrragær sem hann sagði vera „samskonar glapamál, hvort sem það er notað af vanmætti eða einhvers konar tilburðum til fyndni.“ En þetta er gamalt orð – elsta dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar er úr kvæði frá 17. öld eftir Stefán Ólafsson í Vallanesi. Orðið kemur líka fyrir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar og í þulu og þjóðkvæði í safni Ólafs Davíðssonar, Íslenskar þulur og þjóðkvæði. Það kemur einnig a.m.k. sjö sinnum fyrir í verkum Halldórs Laxness, þar á meðal í kviðlingnum „Ójón ójón fullur í dag fullur í gær fullur í fyrragær“ í Íslandsklukkunni, og Thor Vilhjálmsson hefur einnig notað það.

Á tímarit.is eru 60 dæmi um orðið, og það er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals og nefnt undir gær í Íslenskri orðabók. Ekki er ólíklegt að það sé myndað með hliðsjón af forgårs í dönsku en þetta er eðlileg orðmyndun í samræmi við fyrradag, fyrramorgun, fyrrakvöld og fyrrinótt. Auðvitað er fyrragær „óþarft“ orð, þannig séð, vegna þess að við höfum fyrradag í sömu merkingu – en þetta eru engin málspjöll, þótt ég ætli ekki að leggja til að við tökum það í virka notkun. En hvorugt orðið, gærnótt og fyrragær, á það skilið að vera úthrópað sem orðskrípi.