Maður enn og aftur

Ég hef stundum rætt um merkingu orðsins maður og samsetninga af því. Nýlega var ég að lesa íþróttafréttir á mbl.is og staldraði við eftirfarandi málsgrein: „Banda­ríkja­kon­an Val­arie Allm­an reynd­ist hlut­skörp­ust í úr­slit­um kvenna í kringlukasti á Ólymp­íu­leik­un­um í Tókýó í dag.“ Ég áttaði mig á því að mér væri lífsins ómögulegt að segja „Banda­ríkja­maðurinn Val­arie Allm­an . . .“. Það stafar ekki af einhverri kynjapólitískri rétthugsun – svona er bara raunveruleg málkennd mín.

Aftur á móti gæti ég alveg sagt „Val­arie Allm­an er Bandaríkjamaður sem sigraði í kringlukasti kvenna á Ólympíuleikunum í dag“. Það skiptir sem sé máli fyrir mig hvort Bandaríkjamaður stendur hliðstætt nafninu – á undan því – eða sem sagnfylling með sögninni vera. Í fljótu bragði sýnist mér á Risamálheildinni að ég sé ekki einn um þessa tilfinningu þar eru nánast engin dæmi um að kvenmannsnafn komi á eftir Bandaríkjamaðurinn.

Sama máli gegnir um önnur þjóðaheiti sem enda á -maður – ég get ekki haft þau á undan kvenmannsnafni. Aftur á móti er ég ekki í neinum vandræðum með að nota önnur karlkyns þjóðaheiti á undan kvenmannsnöfnum - Englendingurinn Theresa May, Þjóðverjinn Angela Merkel, Frakkinn Marine le Pen, o.s.frv. Það er sem sé ekki kynið sem skiptir máli, heldur orðhlutinn -maður. Þetta er enn eitt dæmi um það hvernig orðið maður hefur sterk tengsl við karlmenn í huga málnotenda – a.m.k. mínum huga.