Er íslenskukennsla útlendingum í hag?

Formaður Eflingar er ekki hrifin af hugmynd um að íslenskukennsla á vinnutíma verði hluti af kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar og kallar mig „elítu“ sem tali úr fílabeinsturni – það má sjálfsagt til sanns vegar færa. Hins vegar finnst mér alltaf dálítið ódýrt og ómerkilegt að nota slík orð til að afgreiða fólk í opinberri umræðu. En sérstaklega finnst mér dapurlegt að formaður Eflingar virðist ekki hafa minnsta skilning á því að það kunni að vera umbjóðendum hennar í hag að læra íslensku, frekar en búa í einöngruðum samfélögum fólks sem ekki kann íslensku, er fast í láglaunastörfum og tekur ekki virkan þátt í samfélaginu, börn þess detta út úr skóla, o.s.frv. Ég held reyndar að fátt bæti hag erlends starfsfólks meira en íslenskunám.

„Það er náttúrulega bara afskaplega undarlegt að þau sem tilheyra einhverri menntaelítu skuli ætla að setja ábyrgðina á verkalýðsfélög verka- og láglaunafólks sem að augljóslega hafa um stærri og veigameiri hluti að hugsa akkúrat núna heldur en það að vernda íslensku þjóðtunguna“ segir Sólveig. Ýmsum finnst kannski að það sé ekki margt sem er stærra og veigameira en að vernda íslenskuna, og það hljóti að vera á ábyrgð okkar allra, en látum það liggja á milli hluta. Í tillögu minni var einmitt ekki verið að setja ábyrgðina á verkalýðsfélög, að öðru leyti en því að leggja til að þetta yrði hluti af kröfugerð þeirra, heldur var gert ráð fyrir að atvinnurekendur og ríkið bæru kostnaðinn.

Mér finnst málflutningur formannsins dálítið mótsagnakenndur: „Fólk vinnur andlega og líkamlega erfiða vinnu sem gerir það líka að verkum að hugur þeirra er kannski ekkert sérstaklega fókuseraður á það að læra tungumál.“ Þetta er auðvitað hárrétt, en það var nú einmitt þetta sem hugmynd mín átti að bregðast við – hún gekk út á það að draga úr þessari andlegu og líkamlega erfiðu vinnu en nota þann tíma sem þannig ynnist í íslenskunám. En það hefði líka verið gaman að heyra sjónarmið þeirra sem þetta snertir virkilega – þeirra 53% félagsmanna Eflingar sem ekki eiga íslensku að móðurmáli. Getur verið að þeim finnist mikilvægt að eiga kost á íslenskunámi í vinnutíma þótt formanninum finnist það léttvægt?