Lágkúra Isavia

Í gær var sagt frá því í Morgunblaðinu að í flugvélum Icelandair væru allar tilkynningar nú á íslensku á undan enskunni. Í fréttinni kom fram að þetta hefði verið ákveðið eftir samræður við menningar- og viðskiptaráðherra, og í Fréttablaðinu kom fram að „ís­lenskir far­þegar létu einnig í sér heyra og létu vita að þeir vildu vera boðnir vel­komnir heim á ís­lensku“. Þetta sýnir eins og fleiri nýleg dæmi að þrýstingur málnotenda getur haft áhrif, og í framhaldi af þessu hafði Morgunblaðið samband við Isavia og spurði um enskunotkun í Leifsstöð en þar „eru flest skilti með ensk­una í for­grunni en ís­lensk­an kem­ur þar fyr­ir neðan sem annað tungu­mál“. Margsinnis hafa verið gerðar athugasemdir við þetta, án árangurs.

Haft er eftir upplýsingafulltrúa Isavia að hann sé „að mörgu leyti sammála“ forstjóra Icelandair en segir þó „að það séu mikl­ar breytingar framund­an í flug­stöðinni á næstu árum og því mik­il­vægt að horfa á kerfi leiðbein­inga­skilta í mun stærra sam­hengi“. Þegar fólk í áhrifastöðum tekur hugmyndum vel en fer strax að tala um „stóra samhengið“ er ástæða til að vera á varðbergi. Þetta táknar nefnilega oftastnær að ekkert eigi að gera – það er verið að drepa málinu á dreif, enda segir upplýsingafulltrúinn líka: „Við höf­um enn ekki hafið þá vinnu að end­ur­skoða hvernig við get­um mögu­lega bet­ur sam­einað þau sjón­ar­mið að tryggja flæði og ör­yggi farþega á flug­vell­in­um ásamt því að halda ís­lensk­unni á lofti á sama tíma.“

Isavia hefur „ekki enn hafið þá vinnu“ að gera íslenskunni hærra undir höfði þrátt fyrir að stjórn Íslenskrar málnefndar hafi nokkrum sinnum skrifað Isavia um málið, bæði 2016 og 2017, en fyrirtækið hefur aldrei látið svo lítið að svara. Stjórnin skrifaði einnig forsætisráðherra, fjámálaráðherra og samgönguráðherra um málið og fékk lítil viðbrögð, nema hvað samgönguráðuneytið taldi í bréfi frá 18. október 2017 (sem var svar við bréfi stjórnarinnar 17. júní 2016 !!!) að ákvæði laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls þar sem segir að íslenska sé mál stjórnvalda ættu ekki við þótt Isavia sé ríkiseign þar sem engar greiðslur rynnu til þess frá ríkinu – sem er í besta falli umdeilanleg lögskýring.

Upplýsingafulltrúanum verður tíðrætt um öryggismál og segir: „Leiðbein­inga­skilt­in eða veg­vís­ar hafa ákveðið hlut­verk á flugvellinum sem snýr að því að farþegar kom­ist hratt og ör­ugg­lega milli staða. Mik­ill meiri­hluti farþega sem fara um Kefla­vík­ur­flug­völl skil­ur ekki íslensku.“ Auðvitað dettur engum í hug að hætta að hafa ensku á skiltunum. Það er bara verið að fara fram á að þjóðtungan sé höfð á undan, eins og gert er víðast hvar á evrópskum flugvöllum – meira að segja þótt fáir skilji viðkomandi tungumál. Á Írlandi er írska höfð á undan ensku, og í Skotlandi er skosk-gelíska víða á undan ensku. Fáir skilja þau mál, en það hefur samt ekki frést að öryggi á írskum og skoskum flugvöllum sé stefnt í voða vegna þessa.

Upplýsingafulltrúinn er samt borubrattur og heldur áfram: „Þegar kem­ur aft­ur að móti að ís­lenskri tungu og ís­lenskri menn­ingu almennt í flug­stöðinni þá eru klár­lega mik­il tæki­færi fyr­ir hendi, enda erum við með ís­lenska menn­ingu og tungu mjög framar­lega í okk­ar hönn­un­ar­for­send­um þegar kem­ur al­mennt að framtíðaruppbyggingu á Kefla­vík­ur­flug­velli. Íslensk­an skipt­ir Isa­via miklu máli. Við vilj­um að farþeg­arn­ir okk­ar upp­lifi það að þeir séu á Íslandi inni í flug­stöðinni á Kefla­vík­ur­flug­velli.“ Það er nú einmitt það sem hefur verið kvartað yfir – að farþegar upplifa það ekki að þeir séu á Íslandi. Fyrirtækið þykist ætla að leggja áherslu á íslenskuna „þegar kem­ur al­mennt að framtíðar­upp­bygg­ingu“ en gerir ekkert í samtímanum.

„En það er bjargræðisleið bæði fljótleg og greið“ eins og Spilverk þjóðanna söng. Isavia er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins og fjármálaráðherra fer með eina hlutabréfið. Nú liggur beint við að á næsta hluthafafundi leggi ráðherrann fram tillögu um að Isavia breyti um stefnu og hafi íslensku á undan ensku á skiltum í Leifsstöð. Ráðherrann þarf síðan ekki annað en greiða atkvæði með eigin tillögu til að hún sé samþykkt einróma. Ég meina þetta í fúlustu alvöru. Ef stjórnvöld hafa raunverulegan vilja til að efla íslenskuna og setja hana í forgang þurfa þau að sýna þann vilja í verki. Menningar- og viðskiptaráðherra hefur gert það á ýmsan hátt, nú síðast með því að þrýsta á Icelandair – nú er komið að fjármálaráðherra. Yfir til þín, Bjarni.