Að berskjalda sig

Íslenskan er lifandi mál og ný orð eru alltaf að koma fram og ná hylli málnotenda. Í gær sá ég sögnina berskjalda í viðtali við Unu Torfadóttur tónlistarkonu á vef RÚV – „Ég hef alltaf lagt mjög mikið upp úr því að vanda mig og að vera nærgætin af því að mér finnst ótrúlega mikilvægt að berskjalda sig í list og vera svolítið hugrakkur“. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég sé þessa sögn en hún er þó ekki algengari en svo að ég tek eftir henni þegar ég rekst á hana. Mér fannst þeim tilvikum hafa fjölgað undanfarið og þess vegna fór ég að skoða sögnina svolítið. Þá komst ég að því að hún er ekki í neinum orðabókum og ekki heldur í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Þar er aftur á móti að finna óbeygjanlega lýsingarorðið berskjalda sem fjögur dæmi eru um í Ritmálssafni Árnastofnunar, það elsta frá 17. öld. Það orð þekkti ég ekki heldur en það lifir samt enn í nútímamáli þótt sjaldgæft sé. Í Morgunblaðinu 2017 segir t.d.: „Vitar Íslands standa oftar en ekki á afskekktum annesjum eða útskerjum, berskjalda fyrir veðri og vindum, óvarðir fyrir ágangi sjávar.“ Þetta er samheiti við berskjaldaður sem er algengt og vel þekkt orð – um það eru yfir fimm þúsund dæmi á tímarit.is, það elsta frá 1862. En orðið kemur einnig fyrir í Njálu: „Þess galt eg nú,“ segir Kolur, „er eg var berskjaldaður“ og stóð nokkura stund á hinn fótinn og leit á stúfinn.“

Orðið berskjaldaður lítur út eins og lýsingarháttur þátíðar af sögn, sem væri þá berskjalda, en hún kemur ekki fyrir á prenti fyrr en á 20. öld. Það er auðvitað hugsanlegt að sögnin hafi verið til í fornu máli og lifað í málinu öldum saman án þess að komast á prent. Slíkt væri ekki einsdæmi. En einnig getur verið að orðið hafi verið myndað með því að bæta ber- framan við lýsingarháttinn skjaldaður, af sögninni skjalda sem var til í fornu máli og merkti 'hlífa með skildi' – í fornu máli er einnig til samsetningin al-skjaldaður. Í sögninni berskjalda væri þá um að ræða „öfuga orðmyndun“ ef svo má segja, þ.e. sögnin væri leidd af lýsingarhættinum berskjaldaður en ekki öfugt eins og yfirleitt er. Slík orðmyndun er ekki heldur einsdæmi.

Í Íðorðabankanum er einnig að finna orðið berskjöldun sem kemur fyrir í íðorðasafni í læknisfræði og er skilgreint svo: „Það að láta verða fyrir áhrifum sem geta haft skaðvænleg áhrif, svo sem af miklum hita, kulda, geislun eða sóttkveikjum.“ Elsta dæmi um orðið er þó úr Tímariti lögfræðinga 1955 þar sem segir: „Þessi berskjöldun vörumerkja er e. t. v. sá þáttur í réttarvernd þeirra, sem menn hafa mestan áhuga á.“ Alls eru um 70 dæmi um orðið á tímarit.is frá því um miðjan tíunda áratuginn. Flest þessara dæma eru úr fræðilegu samhengi og hafa merkinguna sem skilgreind er í Íðorðabankanum, en á seinustu árum virðist það þó notað eitthvað í almennari merkingu, 'varnarleysi' eða eitthvað slíkt.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um sögnina berskjalda er í Rauða fánanum 1934: „Með kenningunni um hið „Skárra af tvennu illu“ […] hafa SUJ-foringjarnir reynt að afvopna verkalýðsæskuna, reynt að berskjalda hana fyrir fasistiskum hungurárásum auðvaldsins.“ Í Nýju dagblaði 1942 segir: „Hvernig er unnt á sem skemmstum tíma að berskjalda Ísland fyrir innrás þýzka hersins?“ Í þessum dæmum merkir berskjalda greinilega 'gera varnarlausan' og sama gildir t.d. í Morgunblaðinu 1992: „Eyðing skóganna berskjaldar jarðveginn“ og í Fréttablaðinu 2021: „laxinn tekur upp á því í tíma og ótíma að stökkva upp úr djúpinu og berskjalda sig þannig gagnvart veiðimönnum“.

Að undanteknum elstu dæmunum er sögnin nær alltaf notuð afturbeygð – talað um að berskjalda sig. Merkingin virðist oftast vera 'opna sig, bera tilfinningar sínar á torg' frekar en beinlínis 'gera sig varnarlausan' þótt þarna sé vissulega stutt á milli og segja megi að opnunin leiði til varnarleysis. Örfá dæmi eru um sögnina frá tveimur síðustu áratugum 20. aldar og fyrsta áratug þessarar, en allmörg dæmi eru frá síðasta áratug. Það er þó einkum á síðustu tveimur árum sem dæmum fjölgar verulega – sögnin er greinilega búin að ná fótfestu meðal málnotenda. Það er engin ástæða til annars en fagna því – mér finnst þetta ágæt sögn og gagnast vel.