Leiðir
Í umræðu um starfsheiti hér í gær var vitnað í grein á Vísi þar sem var talið óheppilegt að nota orðið leiðtogi í starfsheitum, sem þýðingu á lead, eins og eitthvað hefur borið á. Rökin voru þau að leiðtogi væri „einstaklingur en ekki starfsheiti“ og auk þess skildi fólk orðið á mismunandi hátt. Ég benti á að vitanlega væri möguleiki að taka orð sem til eru í málinu og gefa þeim ný hlutverk, eins og hefði t.d. verið gert með orðin formaður og forseti. Ég var samt ekki beinlínis að leggja þetta til, og vissulega tæki tíma að venja fólk við nýtt hlutverk orðsins. Breyting af þessu tagi er ekki heldur alveg einföld eða óumdeild. Illugi Jökulsson segir t.d. á Facebook-síðu sinni: „Það er dónaskapur af einhverjum fyrirtækjum eða stofnunum eða auglýsingastofum að ætla sér að ræna merkingu orðsins.“
Ég legg til að orðið leiðir verði tekið upp í þessari merkingu. Það er að finna í Íslenskri orðabók í merkingunni 'leiðið efni' og í sömu merkingu í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem það er skýrt með orðinu leiðari sem er venjulega orðið um þetta fyrirbæri. Í Ritmálssafni Árnastofnunar er vísað í eitt dæmi um orðið, í þýðingu séra Jóns Þorlákssonar á Bægisá á Messíasi eftir Klopstock. Þar segir í ávarpinu „Til frelsarans“, sem er aftan við bækurnar 20: „logann lét ek mér / til leiðirs kjörinn, / leyptrar hátt á leið / ljóss-glóð undan.“ Ég sé ekki betur en leiðir (sem er þarna beygt eins og gert var um aldir) hafi þarna merkinguna 'foringi, leiðtogi'. En vegna þess að þetta er ekki orð sem við erum vön er hægt að taka það upp í starfsheitum. Það er stutt, lýsandi og lipurt í samsetningum.