Ósvaraðar spurningar

Í gær sá ég á vefmiðli frétt með fyrirsögninni „Önnur þáttaröð af Svörtu söndum væntanleg: „Ennþá margar ósvaraðar spurningar““. Í fréttinni stóð: „Fyrir þá sem horfðu á seríu eitt, þá voru margar ósvaraðar spurningar sem eru í raun og veru að fara vera viðfangsefni seríu tvö.“ Þegar ég leit aftur á fréttina nokkru síðar var búið að breyta bæði fyrirsögninni og fréttatextanum. Fyrirsögnin er nú „Önnur þáttaröð af Svörtu söndum væntanleg: „Mörgum spurningum enn ósvarað““ (þótt upphaflega fyrirsögnin sjáist enn í slóðinni á fréttina) og í fréttinni segir: „Fyrir þá sem horfðu á seríu eitt, þá er mörgum spurningum enn ósvarað sem eru í raun og veru að fara vera viðfangsefni seríu tvö.“ Hvað var athugavert við fyrra orðalag?

Sögnin svara tekur með sér andlag í þágufalli – ég svaraði spurningunum. Þegar setningum með þágufallsandlagi er snúið í þolmynd helst þágufallið venjulega – spurningunum var svarað. Sama gildir um eignarfallsandlög – þau halda falli sínu í þolmynd eins og sést á ég spurði engra spurningaengra spurninga var spurt. En þolfallsandlög verða að nefnifallsfrumlögum í þolmynd – þolmyndin af hundurinn beit hana er hún var bitin, ekki *hana var bitið (þolfallið helst vissulega í „nýju þolmyndinni“ en þá á eftir sögninni – það var bitið hana). Í upphaflegri gerð áðurnefndrar fréttar hagaði þágufallsandlagið sér því eins og dæmigerð þolfallsandlög – varð að nefnifallsfrumlagi í þolmynd.

Þetta er vissulega ekki einsdæmi. Ég hef áður skrifað um dæmi eins og lagðir bílar, þar sem hinn upphaflegi lýsingarháttur þátíðar verður að lýsingarorði, eins og í hliðið var lokað, ég var boðinn í mat o.fl. Þá er ekki lengur um að ræða þolmynd sem lýsir athöfn eða verknaði, heldur germynd sem lýsir ástandi – óspurðar spurningar er þá sams konar dæmi og áhugaverðar spurningar. Fjöldi hliðstæðna er til í málinu. Við tölum t.d. um ólokin verkefni, lítið ekinn bíl, ólokaðar dyr o.s.frv. þótt sagnirnar ljúka, aka og loka taki allar þágufallsandlög og því mætti búast við verkefninu var lokið, bílnum var ekið, dyrunum var lokað. Þær setningar eru vitanlega til líka, en hafa aðra merkingu – tákna athöfn, ekki ástand.

Hvers vegna var þá verið að breyta ósvaraðar spurningar í spurningum enn ósvarað í áðurnefndri frétt? Væntanlega hafa verið gerðar athugasemdir við fyrrnefnda orðalagið og vissulega er það ekki algengt, en þó fjarri því að vera nýjung. Á tímarit.is eru tæp 200 dæmi um ósvöruð spurning, flest yngri en 1980 en allnokkur þó eldri, það elsta í Ísafold 1882 – „En með eintómum ósvöruðum spurningum upplýsir hann ekki málið nægilega“. Í Ritmálssafni Árnastofnunar er dæmi úr bréfi frá Jóni Árnasyni þjóðsagnasafnara 1858 – „Eg hefi fengið bréf frá þér, þrjú, og eru enn öll ósvöruð“. Með hliðsjón af fjölda dæma, aldri og augljósum hliðstæðum er engin ástæða til annars en telja ósvaraðar spurningar gott og gilt mál.