Er nóg að tala ensku við umönnunarstörf?

Eina pólitíkin sem á heima í Facebook-hópnum Málspjall er málpólitík. Þótt við höfum hvert og eitt okkar skoðanir á pólitískum ágreiningsmálum svo sem einkarekstri eiga slík mál ekki erindi þangað inn – nema þau komi íslenskunni beinlínis við. Þannig er um þessa grein. Í henni er nefnilega vakin athygli á því að á öldrunardeild Landspítalans á Vífilsstöðum er flest starfsfólk útlent – en það talar íslensku. „Landspítalinn ræður þetta fólk því aðeins í vinnu að það skilji sjúklingana og þeir skilji það. Allt annað væri glundroði. Gremja á einum stað, farsi á öðrum, enda byggja flestir gamanleikir á endalausri röð fáránlegra atvika, þar sem allir misskilja alla. Landspítalinn hefur því kostað íslenskunám erlendra starfsmanna sinna.“

En nú hefur ríkisstjórnin falið einkafyrirtæki að reka Vífilsstaði, og þetta fyrirtæki auglýsti eftir starfsfólki um helgina. Í lýsingu á kröfum til þeirra sem eiga að veita almenna umönnun og aðhlynningu stendur: „Góð íslenskukunnátta og/eða enskukunnátta, skrifuð og töluð.“ Það eru sem sé ekki gerðar kröfur um íslenskukunnáttu fólks í umönnunarstörfum – enskukunnátta dugir. Þó er ljóst að fólkið sem á að sinna er flest komið um eða yfir áttrætt, uppalið áður en enskukunnátta varð almenn á Íslandi og skilur iðulega lítið sem ekkert í ensku. Það er auðvelt – en ekki skemmtilegt – að ímynda sér ýmiss konar mistök, vandræði og þjáningar sem geta hlotist af því að gagnkvæman skilning skorti.

Hér var nýlega tekið undir orð forsætisráðherra um að það væri „menningarlegt stórslys“ ef íslenskan hyrfi. En það er ekki nóg að vera með stórar yfirlýsingar – þeim þarf að fylgja eftir með aðgerðum. Í þessu tilviki eru aðgerðir ríkisstjórnar undir forystu þessa sama forsætisráðherra að vinna beinlínis gegn íslenskunni, þótt það hvarfli ekki að mér að það sé með ráðum gert. En þegar ríkið gerir samninga af þessu tagi við einkafyrirtæki væri auðvitað hægt, ef vilji væri fyrir hendi, að setja inn í samningana skilyrði um að fyrirtækin sæju starfsfólki fyrir ókeypis íslenskukennslu á vinnutíma, og fólk yrði ekki ráðið til umönnunarstarfa nema það talaði íslensku. Mér finnst það vera sjálfsögð krafa.