Búum til íslensk starfsheiti í stað enskra

Í Vísi í dag er haldið áfram fróðlegri umfjöllun um starfsheiti – á íslensku og ensku. Fyrirsögn greinarinnar er „Íslenskan stundum hamlandi: „Leiðtogi er einstaklingur en ekki starfsheiti““. Þarna kemur fram sá varhugaverði misskilningur sem virðist vera töluvert útbreiddur að enska sé á einhvern hátt liprari og meira lýsandi en íslenska – ensk starfsheiti lýsi því nákvæmlega hvað í starfinu felst en erfitt sé eða útilokað að búa til íslenskar samsvaranir þeirra. Það er einfaldlega rangt. Þessi misskilningur stafar af því að fólk lærir ensku starfsheitin sem heild, og hvað í þeim felst, án þess að pæla í merkingu einstakra hluta þeirra. Merking starfsheitisins er nefnilega alls ekki summa af merkingu orðanna sem mynda það.

Þegar á að finna íslenskar samsvaranir finnst mörgum hins vegar að ekki sé hægt að nota tiltekin íslensk orð vegna þess að fólk hafi mismunandi skilning á þeim, og aðrar merkingar þeirra flækist fyrir. Undirliggjandi er þá sú hugmynd að þannig sé þetta ekki í ensku – þar sé merking orða skýr og ótvíræð. Viðmælandi Vísis segir: „Með leiðtoganum sem starfsheiti erum við hins vegar að taka orð sem kemur úr enskunni; orðið Lead. Í enskum starfsheitum er merking orðsins að leiða og mentora. Sem er ekkert endilega sá skilningur sem allt fólk hefur á íslenska orðinu leiðtogi.“ En lead á sér auðvitað fjölmörg merkingartilbrigði í ensku og við þurfum að læra hvaða merking á við í hverju sambandi.

„Í dag vitum við öll hvað forstjóri gerir, framkvæmdastjóri og svo framvegis. En það eru að koma inn orð eins og leiðtogi sem fólk er ekki að upplifa og skilja á sama hátt.“ Hér má benda á að forstjóri er gamalt orð í málinu en í fornmáli var það ekki starfsheiti – það var einhvers konar ráðamaður, leiðtogi. „Var hann forstjóri fyrir liði og landvörn“ segir í Egils sögu, og í Flóamanna sögu segir „Þorgrímur var góður forstjóri héraðsins“. Einnig má nefna orðið forseti sem í upphafi var alls ekki starfsheiti eða hlutverksheiti af neinu tagi, heldur nafn eins af Ásum. Þessum orðum hafa hins vegar verið gefin ný hlutverk sem við höfum vanist. Sama væri auðvitað hægt að gera með önnur orð, eins og leiðtogi.

Viðmælandi Vísis segir einnig: „Já íslenskan getur verið hamlandi. Oft vantar okkur hreinlega fleiri orð. Fyrir vikið eru til starfsheiti þar sem íslenskan nær ekki að lýsa starfinu eins vel og enska starfsheitið […]. Orðið „Learning“ er gott dæmi um slíkt orð og lýsandi í enskum starfsheitum, án þess að þau störf komi starfi fræðslustjóra hér nokkuð við.“ Það má taka undir að okkur vanti fleiri orð, og sjálfsagt er fræðslustjóri ekki alltaf heppilegt orð – en það táknar ekki að útilokað sé að finna íslenskt orð í stað learning í starfsheitum. Og þótt learning þyki „lýsandi í enskum starfsheitum“ þýðir það ekki að orðið hafi sömu merkingu í öllum enskum starfsheitum þar sem það kemur fyrir.

„Það sama má segja um starfsheitið Global Engagement & Culture Manager sem byggir á að efla helgun, drifkraft, ástríðu og byggja upp menningu, en er erfitt að þýða yfir í íslenskt starfsheiti.“ Ég skil ensku þokkalega og þykist vita hvað orðin global, engagement, culture og manager merkja – og merkingu þeirra er líka hægt að fletta upp í orðabókum. En ég er samt engu nær um verksvið þeirra sem eru Global Engagement & Culture Managers – og ég sé ekki að það sé hægt að lesa lýsinguna „efla helgun, drifkraft, ástríðu og byggja upp menningu“ ótvírætt út úr orðunum. Málið er að við þurfum að læra heildarmerkingu svona sambanda – rétt eins og við þyrftum að gera ef þau væru íslenskuð. En það gleymist.

Í lok greinarinnar spyr blaðakona Vísis: „Þurfum við þá mögulega að hugsa oftar út fyrir boxið: Ekki um þýðingar heldur hvert hlutverk viðkomandi er og búa þá jafnvel til ný heiti sem við skiljum öll eins sbr. fyrirliði?“ Og viðmælandinn svarar: „Þetta gæti verið áhugavert verkefni fyrir aðila eins og félag Mannauðsfólks á Íslandi eða Samtök atvinnulífsins. Að skoða hvort mögulegt sé að gefa út einhverjar leiðbeinandi upplýsingar.“ Þetta er einmitt málið, held ég. Það er misskilningur að reyna að elta ensku starfsheitin orð fyrir orð. Við þurfum að búa til íslensk starfsheiti á íslenskum forsendum og nota þau, þannig að fólk venjist þeim. Samtök atvinnulífsins segjast vilja styrkja íslenskuna – hér er ein leið.