Eru sum ensk starfsheiti óþýðanleg?

Á Vísi í dag er fróðleg grein með titlinum „Erum við hætt að skilja sum starfsheiti?“ og boðað að hún sé upphaf umfjöllunar um starfsheiti og þróun þeirra. Í upphafi greinarinnar segir: „Stöðuheiti á ensku eru sífellt að verða fleiri og sýnilegri í íslensku atvinnulífi. Enda mörg fyrirtæki sem starfa á alþjóðavettvangi og orðið algengara en áður að aðal tungumál vinnustaða sé enska.“ Þetta er auðvitað eitt af mörgum dæmum um það að enskan sé smátt og smátt að leggja undir sig fleiri og fleiri svið þjóðlífsins og ýta íslenskunni út. Í greininni er m.a. rætt við fulltrúa þriggja ráðningarstofa og spurt: „Hver er þín upplifun/reynsla og hver heldur þú að þróunin á þessu verði?“

Einn viðmælandi segir: „Í algjörum undantekningum eru starfsheiti fyrirtækja sem starfa að mestu leyti á íslenskum markaði á ensku, en þá er það fyrst og fremst vegna þess að við eigum ekki til nógu góð lýsandi starfsheiti á íslensku, til dæmis „Growth Manager“.“ En ef ekki er til íslenskt starfsheiti ætti ráðningarstofan að hafa metnað til að smíða það. „Growth Manager“ gæti t.d. heitið vaxtarstjóri. Ég sé ekki að það starfsheiti væri neitt minna lýsandi en það enska, en vegna þess að það er nýtt hljómar það vitanlega framandi. En verkefni vaxtarstjórans væru væntanlega skilgreind í auglýsingunni og ef starfsheitið kemst í notkun venst það fljótlega.

Sami viðmælandi heldur áfram: „Auk þess eru sum störf einfaldlega meira lýsandi á ensku, eins og til dæmis „Multimedia Sales Engineer“.“ Hér verður að spyrja: Meira lýsandi en hvað? Ekki er vísað til neins íslensks starfsheitis sem stungið hafi verið upp á. Á bak við þetta virðist búa sú hugsun að það sé einfaldlega ekki hægt að orða þetta starfsheiti á lýsandi hátt á íslensku. Það er auðvitað fráleitt. Hins vegar er auðvitað spurning hversu lipur sú þýðing yrði, en þá má einnig spyrja hvort Multimedia Sales Engineer sé sérstaklega lipurt. Málið er auðvitað það sama og með „Growth Manager“: Viðmælandinn þekkir ensku starfsheitin og finnst þau þess vegna lýsandi. En það er ekki þar með sagt að öðrum finnist það.

Sami viðmælandi segir einnig: „Það er mikilvægt að fyrirtæki noti starfsheiti sem er lýsandi fyrir starfið því slæmt er ef þau valda misskilningi, bæði meðal starfsfólks og þeirra sem kunna að sækja um starfið.“ Annar viðmælandi segir: „Það er mikilvægt að starfsheiti séu skiljanleg, gegnsæ og gefa vel til kynna um hvaða starf er að ræða til að hægt sé að átta sig á hvað fólk hefur starfað við á ferlinum.“ Þriðji viðmælandi segir: „Starfsheiti er það fyrsta sem dregur umsækjanda að starfi og er mikilvægt að það sé nægilega lýsandi fyrir það starf sem viðkomandi mun sinna.“ Hér held ég að gagnsæi starfsheita sé verulega ofmetið. Því fer fjarri að öll algeng íslensk starfsheiti séu gagnsæ eða lýsi því út á hvað starfið gengur.

Það er t.d. ekki svo að allir framkvæmdastjórar stýri einhverjum framkvæmdum. Það sem áður hét starfsmannastjóri heitir nú oft mannauðsstjóri – er sú breyting lýsandi fyrir breytingu á eðli starfsins? Hvað með samskiptastjóra – sjá þeir um samskipti innan vinnustaðarins eða út fyrir hann? Hver er munurinn á upplýsingafulltrúa, almannatengli, kynningarstjóra og fjölmiðlafulltrúa? Á mínum gamla vinnustað er fjöldi deildarstjóra sem ekki stýra neinum deildum og verkefnisstjóra sem ekki stýra neinum verkefnum. Það þýðir auðvitað ekki að þetta fólk sé ekki að vinna vinnuna sína, heldur þarf að raða fólki í tiltekin starfsheiti sem skilgreind eru í kjarasamningum.

Málið er að við þekkjum þessi starfsheiti og vitum – eða þykjumst vita – hvað í störfunum felst, og þess vegna finnst okkur heitin vera gagnsæ. En það er iðulega blekking. Meginatriðið í þessu er að gagnsæi orða skiptir fyrst og fremst máli þegar orðin eru ný og óþekkt. Þegar við erum búin að læra orðin og átta okkur á því hvað þau merkja og hvernig þau eru notuð hættir gagnsæið að skipta máli. Þá fer orðið – starfsheitið í þessu tilviki – að lifa sjálfstæðu lífi óháð uppruna sínum og orðhlutum. Þannig getur það líka orðið með íslensk starfsheiti fyrir „Growth Manager“ og „Multimedia Sales Engineer“. En auðvitað ekki ef við gefum okkur fyrir fram að útilokað sé að þýða þessi starfsheiti almennilega.