Líttu við
Í kverinu Gætum tungunnar sem kom út 1984 segir:
- Maður sagði: Líttu við í kvöld.
- Hann hugsaði: Líttu inn, eða Komdu við.
- (Að líta við merkir að líta um öxl, horfa til baka; en það merkir ekki að líta inn eða koma við.)
Það er ekki einsdæmi að amast hafi verið við notkun sambandsins líta við í áðurgreindri merkingu. Gísli Jónsson gerði það t.d. í þætti sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu 1984, og Guðni Kolbeinsson sagði í Helgarpóstinum 1995: „Við getum komið við á einhverjum stað og litið inn til kunningjanna. Hins vegar megum við ekki slá þessu tvennu saman og fara að líta við hjá þeim. Líta við merkir bara að snúa höfðinu og líta um öxl.“ Í þætti sínum 1985 birti Gísli Jónsson þó bréf frá Kristjáni Jónssyni frá Garðsstöðum þar sem sagði: „„Að líta við“ merkir auðvitað að líta um öxl […] en ég kannast við það í merkingunni að ætla að koma við og þykir það ekki ljótt. Vil ég því ekki fordæma það heiftarlega.“
En á hverju byggist þessi andstaða? Vorið 1985 skrifaði ég grein í Skímu þar sem m.a. var vísað í Gætum tungunnar og sagt: „Manni er líka sagt að það megi ekki segja líta við í merkingunni 'koma við' eða 'líta inn', því að líta við merki 'líta um öxl'; en af hverju má þá nota koma við í merkingunni 'líta inn', þó að koma við merki líka 'snerta'?“ Þessu svaraði Helgi Hálfdanarson, höfundur kversins: „Við spurningu Eiríks um […] líta við og koma við hygg ég ráðlegast að leita svara í orðabók Sigfúsar Blöndals eða Árna Böðvarssonar og láta sér lynda það sem þar er sagt.“ Og bætti við: „Sambandið líta við í merkingunni koma við eða líta inn finnst hvergi í orðabók; og væri þó e.t.v. tímabært að benda á það sem málleysu.“
Það var vissulega rétt hjá Helga Hálfdanarsyni árið 1984 að líta við í merkingunni 'koma við' eða 'líta inn' fannst þá ekki í neinum orðabókum. En alkunna er að ýmis orð og merkingar sem til eru í málinu hafa ekki komist í orðabækur, og það tekur tíma fyrir ný orð og merkingar að komast þangað inn. Ljóst er að þessi merking er a.m.k. hátt í aldargömul, því að í Vísi 1930 auglýsir skóverslun: „Þegar þér þurfið á bamaskófatnaði að halda, þá gerið svo vel og líta við hjá okkur.“ Eftir 1950 verður merkingin algeng. Hún komst loks inn í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002, að vísu merkt !? sem táknar að hún njóti ekki fullrar viðurkenningar, en hins vegar er hún nefnd alveg athugasemdalaust í Íslenskri nútímamálsorðabók.
Eins og áður kom fram segir í Gætum tungunnar að líta við merki 'að líta um öxl, horfa til baka' og Guðni Kolbeinsson sagði: „Líta við merkir bara að snúa höfðinu og líta um öxl.“ En aðeins örfá dæmi frá seinustu árum á tímarit.is hafa þá merkingu. Hvorki Helgi né Guðni nefnir hins vegar að sambandið getur einnig tekið með sér nafnlið og hefur þá aðra merkingu sem er oftast höfð með neitun – líta ekki við einhverju í merkingunni 'vilja ekki, kæra sig ekki um, hafa ekki áhuga á, virða ekki viðlits'. Við það bætist að í fornu máli merkti sambandið líta við einhverjum 'líta á, horfa í átt til' – „Konungur leit við honum og þagði“ segir í Heimskringlu. En sú merking er að mestu eða öllu leyti horfin í nútímamáli.
Við snögga skoðun á tímarit.is sýnist mér að þótt merkingin 'líta inn, koma við' hafi ekki komist inn í aðra útgáfu Íslenskrar orðabókar 1983 hafi þetta verið algengasta merking sambandsins líta við a.m.k. frá því um 1970, og yfirgnæfandi meirihluti dæma frá þessari öld hefur þá merkingu. Ég veit ekki hvort einhvers staðar er enn verið að fetta fingur út í þessa notkun sambandsins – ég hef ekki rekist á nýlegar athugasemdir við hana og hún er t.d. ekki nefnd í Málfarsbankanum. Þótt líta við hafi vissulega aðrar merkingar líka veldur það engum misskilningi. Það væri auðvitað fráleitt að amast við merkingu sem er hátt í aldargömul í málinu og er greinilega aðalmerking sambandsins í nútímamáli.