Gerandi ofbeldis – gerandi minn

Nafnorðið gerandi hefur fleiri en eitt hlutverk. Í málfræði táknar það „þann sem gerir eitthvað, framkvæmir einhvern verknað, vinnur eitthvert verk“ eins og segir í íðorðasafni í málfræði í Íðorðabankanum. Í þessari merkingu er orðið hlutlaust, notað með fjölbreyttum sögnum – tala, kyssa, vinna, borða, lesa, berja, meiða, drepa taka allar með sér geranda. En auk þess hefur orðið lengi verið notað í lagamáli og dómum um fólk sem brýtur eitthvað af sér eða hagar sér á refsiverðan hátt – talað er um gerendur í fjársvikamálum, þjófnaðarmálum, morðmálum og ýmsum öðrum tegundum afbrota. Síðast en ekki síst er talað um gerendur í kynferðisbrotamálum en notkun orðsins á því sviði hefur aukist mjög á undanförnum árum.

Í tengslum við notkun orðsins gerandi um fólk sem brýtur eitthvað af sér hefur orðið áhugaverð breyting á setningafræðilegri hegðun þess. Nú tekur það iðulega með sér nafnorð í eignarfalli sem lýsir því hvers eðlis umrædd meingerð er – talað er um geranda eineltis, geranda ofbeldis, geranda afbrots, geranda árásar og fleira í þeim dúr, og í kjölfar bankahrunsins 2008 var líka iðulega talað um gerendur hrunsins. Þessi notkun orðsins virðist ekki nema svona þrjátíu ára gömul. Elstu dæmi sem ég finn um hana eru frá 1991 og örfá dæmi eru til frá tíunda áratug síðustu aldar. Notkunin hefst hins vegar að ráði um aldamót og hefur farið stöðugt vaxandi síðan samfara aukinni umræðu um mál af þessu tagi.

Það er auðvitað algengt að nafnorð sem eru mynduð af sögnum með viðskeytinu -andi (upphaflega lýsingarháttur nútíðar) taki með sér eignarfallsorð. Við tölum um eiganda hússins, notendur þjónustunnar, lesendur blaðsins o.s.frv. Í þeim tilvikum tekur samsvarandi sögn oft sams konar nafnorð sem andlag – við tölum um að eiga húsið, nota þjónustuna, lesa blaðið o.s.frv. En því er ekki til að dreifa með sögnina gera – við segjum ekki *gera einelti, *gera ofbeldi, *gera hrunið eða neitt slíkt. Það er þó ekki einsdæmi að orð myndað með -andi samsvari viðkomandi sögn ekki að þessu leyti. Við tölum t.d. um nemendur skólans þótt ekki sé talað um að *nema skólann. Tengsl -andi-orðs við eignarfallsorðið geta verið mismunandi.

En eignarfall með orðinu gerandi getur líka haft annað hlutverk en að lýsa eðli meingerðarinnar – það getur líka staðið fyrir þolanda hennar, einkum í eineltis- og kynferðisbrotamálum. Nú er t.d. sagt ég hætti að óttast geranda minn, hann gat horfst í augu við gerendur sína, þó er hún enn hrædd við geranda sinn, það er verið að hylma yfir með geranda hennar o.s.frv. Þessi notkun eignarfalls með gerandi er mjög nýleg – elsta dæmi sem ég fann um hana er frá 2007 en árið 2012 blossar hún upp og hefur breiðst mjög út á síðustu árum í kjölfar #metoo. Væntanlega er hún tilkomin fyrir áhrif frá hliðstæðum samböndum þar sem þolandinn er í eignarfalli eins og morðingi hans, nauðgari hennar o.fl.

Þar er þó sá munur eins og áður að samræmi er milli nafnorðsins og samsvarandi sagnar – við segjum myrða hann, nauðga henni o.s.frv. Við segjum hins vegar ekki *gera mig/mér, *gera hana/henni. Þar verður að koma eitthvað meira, annað andlag – gera mér/henni mein/miska. En þótt þarna sé ekki samræmi á milli er ástæðulaust að amast við samböndum eins og gerandi minn/hennar/hans o.s.frv. Merkingartengsl milli nafnorðs sem er höfuðorð í nafnlið og eignarfalls sem það tekur með sér geta verið með ýmsu móti. Þó sakar ekki að nefna að í orðinu meingerðamaður sem er gamalt í málinu en mjög sjaldgæft koma bæði andlögin fyrir. Það mætti hugsa sér að segja meingerðamaður minn í stað gerandi minn.