Kjúlli

Um daginn sá ég bent á það hjá Facebookvini að þótt orðið kjúlli sé vissulega í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er það ekki að finna í neinni íslenskri orðabók þrátt fyrir að flestir Íslendingar noti það sennilega eða a.m.k. þekki. Þetta orð, sem er vitanlega stytting eða gæluyrði fyrir kjúklingur, er fjarri því að vera nýtt í málinu. Elsta dæmi á tímarit.is er í sögu eftir Þorstein Antonsson í Lystræningjanum 1980: „Nanna hlustaði með öðru eyranu og varla það, hugsaði um hvað gera þyrfti. Kaupa rauðkál rauðbeður með kjúlla.“ Þar sem orðið tilheyrir óformlegu málsniði eins og aðrar slíkar styttingar segir aldur og tíðni þess á prenti væntanlega ekki alla söguna, en orðið verður algengt í rituðu máli kringum aldamótin.

Slíkar styttingar eða gæluyrði eru gífurlega margar og algengar í óformlegu málsniði, einkum talmáli. Stundum eru þær það algengar og útbreiddar að flestir málnotendur nota þær eða þekkja, og þá er vitanlega ástæða til að skrá þær í orðabækur. Í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983 var t.d. að finna orðin hjúkka sem var skýrt „hjúkrunarkona (gæluyrði)“ og lögga sem var merkt með ? og skýrt „lögregla, lögreglumaður (niðrandi stytting)“. Í ritdómi var bent á að það yrði „naumast sagt að þessar umsagnir um stílgildi orðanna hitti í mark (nema gert sé ráð fyrir að löggum beri meiri virðing en hjúkkum)“. Í nýjustu útgáfu bókarinnar eru orðin hins vegar án spurningarmerkis en merkt „óforml.“.

Þessar styttingar eru af ýmsum tegundum en margar hverjar myndaðar á svipaðan hátt og gælunöfn, svo sem með því að lengja eitthvert samhljóð í grunnorðinu og hugsanlega samlaga það öðrum, eins og þegar kl verður ll í kjúklingur > kjúlli, eins og lf > ll í Úlfar > Úlli og lk > ll í stúlka > Stúlla. Sama gildir um gr > gg í gregla > gga og kr > kk í hjúkrunarkona > hjúkka. Ýmsum öðrum aðferðum er einnig beitt til að mynda gælunöfn og gæluyrði. Viðskeytið , eins og í Sigló, Kvennó, Iðnó, púkó, sleikjó, Samfó o.s.frv. var mjög algengt í slíkri orðmyndun áður fyrr en er sennilega minna notað til nýmyndunar núorðið. Stundum gegnir viðskeytið -ari einnig þessu hlutverki, eins og í Ólsari og fössari.

En iðulega er tíðni og útbreiðsla orða af þessu tagi miklu takmarkaðri – þau eru oft bundin við ákveðinn hóp, t.d. aldurshóp, skólafélaga, kunningjahóp, vinnufélaga, fjölskyldu o.s.frv. Þau eru líka iðulega einnota – fólk bregður þeim fyrir sig og þau eru þá skiljanleg út frá samhengi, en aldrei notuð aftur. Eins geta orð af þessu tagi komist í tísku um tíma en gleymast svo fljótt. Orðið fössari var t.d. valið orð ársins 2015 og er í BÍN en ég veit ekki hvort það er lífvænlegt – það er a.m.k. ekki komið inn í orðabækur. Í Orðabók um slangur sem kom út 1982 er að finna styttinguna Orðó fyrir Orðabók Háskólans. Það helgast af því að höfundar bókarinnar unnu þar allir um tíma, en tæpast hafa margir aðrir notað þetta orð.

Mjög mörg orð af þessu tagi eiga því ekkert erindi í orðabækur – ýmist vegna þess að þau hafa svo takmarkaða notkun og útbreiðslu (í tíma eða rúmi) eða vegna þess að þau eru svo gagnsæ að þau þarfnast ekki skýringar. Það má vel halda því fram að það síðarnefnda gildi um orðið kjúlli. En vegna þess að það er orðið meira en 40 ára gamalt og er mjög útbreitt í málinu fyndist mér samt ekkert óeðlilegt að skrá það í orðabækur.